Erlent

Útilokar ekki afsögn vegna sannleiksskýrslunnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jens Stoltenberg hélt blaðamannafund í dag eftir að sannleiksskýrslan var birt.
Jens Stoltenberg hélt blaðamannafund í dag eftir að sannleiksskýrslan var birt. mynd/ afp.
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, segist miður sín yfir því að björgunaraðgerðir hafi tekið of langan tíma þann 22. júlí í fyrra og að Anders Behring Breivik skyldi ekki hafa verið handtekinn fyrr en raunin varð. Þetta sagði hann á blaðamannafundi eftir að sannleiksskýrsla um atburðina var birt í dag. Hann lofar því að styrkja björgunarlið.

„Við fengum það sem við báðum um, þótt skýrslan sé ekki alltaf þægileg lesning," sagði Stoltenberg á blaðamannafundi. Hann lofar því að málefni lögreglunnar verði tekin til gagngerrar endurskoðunar.

„Skýrslan sýnir umfangsmikil vandamál sem lögreglan glímir við. Það er alvarlegt. Ríkisstjórnin mun þess vegna fara af stað með endurskoðun á málefnum lögreglunnar," sagði Stoltenberg og sagði jafnframt að hann hefði beðið dómsmálaráðherrann um að bregðast við þessum hluta skýrslunnar.

Á blaðamannafundinum var Stoltenberg spurður að því hvort að hann, eða aðrir ráðherra, myndu segja af sér vegna skýrslunnar. Hann svaraði því ekki beint. „Ég er ábyrgur fyrir því hvað gekk upp og hvað gekk ekki upp þann 22. júlí í fyrra. Núna er ég ábyrgur fyrir því að við bætum úr því sem þarf að bæta," segir hann. Þá sagðist hann hvorki útiloka að hann sjálfur, né aðrir ráðherrar myndu segja af sér þegar frammí sækir.

Norska ríkisútvarpið fjallar ítarlega um viðbrögð Stoltenbergs við skýrslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×