Erlent

Þeir sem fórust í Osló mega ekki gleymast

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eskil Pedersen, formaður AUF, flytur minningarorð sín.
Eskil Pedersen, formaður AUF, flytur minningarorð sín. mynd/ afp.
Þakklæti var Eskil Pedersen, formanni AUF, ungliðahreyfingar norska Verkamannaflokksins, ofarlega í huga þegar hann ávarpaði Norðmenn við minningarguðþjónustu í Osló í morgun. Þess er minnst að nú er eitt ár frá því að Anders Behring Breivik fjöldamorðingi lét til skarar skíða í Útey. Eskil lagði hins vegar áherslu á það að nöfn þeirra átta sem létust í sprengingunni í stjórnarráðshverfinu í Osló myndu ekki gleymast. Breivik stóð að þeirri sprengingu áður en hann hélt til Úteyjar.

Norðmennirnir sem létust í stjórnarráðshverfinu hétu Ida Marie Hill, Hanne M. Orvik Endresen, Tove Åshill Knutsen, Anne Lise Holler, Kjersti Berg Sand, Hanne Ekroll Løvlie, Jan Vegard Lervåg og Kai Hauge.

Eskil Pedersen sagði að nöfn þeirra hefðu ekki fengið eins mikla athygli og nöfn þeirra 69 sem fórust í Útey. „Mikið hefur verið talað um Útey og um AUF. En ekki hefur verið talað svo mikið um þá átta sem voru hrifsaðir frá okkur héðan úr hjarta Oslóar," sagði hann.

„Í dag er líka dagur til að vera þakklátur," sagði Eskil Pedersen jafnframt. „Takk forsætisráðherra og stjórnmálamenn í Noregi, því að þið færðuð okkur öll nær hvert öðru. Þakkir til kirkjunnar og annarra trúarsamfélaga, þar sem margir hafa fundið ró of frið. Þakkir til björgunarfólks, til samfélagsins í nágrenni við Útey og til bátafólksins sem reyndist okkur svo vel. Þakkir til allra sem hafa sýnt samhug," sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×