Innlent

Þóra segist ekki vilja kappræður á kostnað annarra frambjóðanda

Þóra Arnórsdóttir forsetaframbjóðandi hefur afþakkað boð um að mæta Ólafi Ragnari Grímssyni í kappræðum á Stöð 2 næstkomandi sunnudag. Ástæðan er sú að öðrum frambjóðendum til forsetambættisins var ekki boðið til kappræðnanna og segir Þóra að hún geti ekki fellt sig við það.

Þannig segir hún í tilkynningu sem hún sendi á fjölmiðla fyrir stundu: „Ég hef haft það viðmið að svara öllum fjölmiðlum sem hafa óskað eftir viðtali, stórum og litlum, innlendum sem erlendum og hef ekki skipt mér af þeirra fréttamati. Ég hlakka til að mæta Ólafi Ragnari Grímssyni í umræðum í sjónvarpssal, en ekki á kostnað annarra frambjóðenda."

Hér fyrir neðan má lesa tilkynninguna í heild sinni:

Fyrir nokkru fékk ég boð frá Stöð 2 um að mæta til sjónvarpsumræðna að kvöldi sjómannadags, 3. júní. Ég hef tekið ákvörðun um að þiggja ekki þetta boð og ítreka fyrri áskorun mína til Stöðvar 2 um að breyta viðmiðum sínum um hverjum verði boðið til þessarar fyrstu sjónvarpsumræðu.

Þegar boðið barst mér sendi ég forsvarsmanni Stöðvarinnar bréf og óskaði eftir því að fyrirkomulag umræðunnar yrði endurskoðað. Lýsti ég því sjónarmiði að þátturinn markaði í raun upphaf kosningabaráttunnar. Það væri okkar litla lýðræðisríki nauðsynlegt á þessum tímapunkti að allir þeir sem fengið hefðu staðfestingu á löglegu framboði fengju jafnt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég þáði því aldrei boðið.

Ég hef haft það viðmið að svara öllum fjölmiðlum sem hafa óskað eftir viðtali, stórum og litlum, innlendum sem erlendum og hef ekki skipt mér af þeirra fréttamati. Ég hlakka til að mæta Ólafi Ragnari Grímssyni í umræðum í sjónvarpssal, en ekki á kostnað annarra frambjóðenda.

Það er ekki sjálfsagt fyrir frambjóðanda að afþakka tækifæri til þess að koma fram í sjónvarpi í beinni útsendingu í meira en klukkustund og koma sinni sýn á framfæri.

En ég hef sagt frá upphafi að ég vilji geta verið stolt af öllu því sem ég hef sagt og gert í þessari kosningabaráttu - og það gengur einfaldlega gegn minni sannfæringu og réttlætiskennd að þiggja þetta boð.

Þóra Arnórsdóttir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×