Fótbolti

Aron: Var að vonast eftir því að Lagerbäck myndi velja mig í landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Jóhannsson í leik með 21 árs landsliðinu.
Aron Jóhannsson í leik með 21 árs landsliðinu. Mynd/Vilhelm
Aron Jóhannsson hefur verið að gera góða hluti með AGF í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta að undanförnu og segist í viðtölum við danska fjölmiðla vera smá svekktur að komast ekki í íslenska A-landsliðið fyrir leikina á móti Frökkum og Svíum.

Aron nýtti sér tækifærið þegar framherjar AGF meiddust og hefur raðað inn mörkum í síðustu leikjum. Aron er með 5 mörk og 2 stoðsendingar í síðustu fimm leikjum sínum með AGF og AGF-liðið hefur unnið fjóra þeirra.

„Það dreymir alla fótboltamenn um að spila með sínu landsliði og ég geri það einnig. Ég hef þó aldrei talað við Lars Lagerbäck. Ég var að vonast eftir því að vera í hópnum að þessu sinni því ég hef verið að spila vel og búinn að skora nokkur góð mörk," sagði Aron Jóhannsson í viðtali við Tipsbladet.

„Þjálfarinn valdi aðra í liðið og ég verð að virða það. Ég verð í staðinn bara að einbeita mér að því að spila fyrir AGF, reyna að vinna síðasta leikinn og halda áfram að skora mörk," sagði Aron.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×