Innlent

Söng hópsöng í Osló

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tók þátt í hópsöng í Osló í dag til að sýna samstöðu með fjölmenningu. Sungið var í tilefni af réttarhöldunum yfir fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik.

Rúmlega 40.000 manns komu saman á Youngstorgi í Osló í dag og sungu þjóðlagið Börn regnbogans eftir Lillebjørn Nilsen. Skammt frá fara fram rétthöldin yfir Anders Behring Breivik. Katrín Jakobsdóttir tók þátt í söngnum ásamt fimm öðrum menningarmálaráðherrum Norðurlandanna.

„Þetta var fjöldi manna, þúsundir manna og allir sameinuðust í söng og þetta var hjartnæm stund," segir Katrín.

Breivik hefur fordæmt lagið fyrir dómnum og sagt það vera heilaþvott á norskum börnum en það er sungið í öllum leikskólum í Noregi.

„Ég held að fyrst og fremst hafi það þýðingu að við öll norrænu ráðherrarnir tókum þátt í þessu saman þvert á lönd og þvert á flokka og með því sýnum við samstöðu með norðmönnum en líka samstöðu með þeirri fjölmenningu sem við viljum að einkenni norræna menningu við viljum að hún bjóði fólk velkomið en sé ekki útilokandi," segir Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×