Erlent

Aldrei hafa fleiri farist í vinnuslysum í Noregi en í fyrra

Alls fórust 52 Norðmenn í vinnuslysum í fyrra og er það mesti fjöldi sem ferst í slíkum slysum í landinu á einu ári frá upphafi.

Til samanburðar fórust 46 í vinnuslysum í Noregi árið 2010 en að meðaltali hafa 42 Norðmenn farist árlega í vinnuslysum á síðustu tíu árum.

Í frétt um málið í Verdens Gang segir að skýringin á þessari aukningu á fjölda dauðaslysa skýrist af hryðjuverkaárásum fjöldamorðingjans Anders Breivik. Þannig eru andlát 11 þeirra sem fórust í árásunum skráð sem vinnuslys, það er hjá sex þeirra sem fórust í sprengingunni í miðborg Óslóar og fimm þeirra sem Breivik myrti síðar um daginn á Úteyju.

Það jákvæða í skýrslu norskra yfirvalda um dauðföll vegna vinnuslysa er að þeim fer fækkandi bæði í byggingargeiranum og meðal iðnaðarfyrirtækja í landinu. Þannig fækkaði slíkum slysum í byggingargeiranum um tvö milli ára og voru þau níu talsins í fyrra. Í iðnaði fækkaði slysunum um þrjú og voru þau sex talsins í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×