Erlent

Segja Breivik vera ímyndunarveikan

Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik hefur neitað að svara mörgum spurningum saksóknara í dag á þriðja þegi réttarhaldanna yfir honum. Breivik hefur verið þráspurður um tengsl hans við öfgahópa og fólk með svipaðar skoðanir og hann en hann hefur áður sagst tilheyra hópi manna sem kenni sig við Musterisriddarana.

Rannsóknir norsku lögreglunnar benda þó eindregið til þess að samtökin séu hugarburður Breiviks og hafa spurningar saksóknara miðað að því að afhjúpa fullyrðingar hans sem lýgi. Andrúmsloftið í réttarsalnum hefur í dag verið mun spennuþrungnara og Breivik, sem hingað til hefur virst yfirvegaður, virðist nú mun óöruggari í tilsvörum.

Hann hefur einnig neitað að svara mörgum spurningum sem að honum hefur veið beint og segir að þær miði að því að gera lítið úr sér. Það sem þó hefur komið fram í máli hans er að hann segist hafa hitt serbneskan þjóðernissina í ferð sinni til Líberíu 2001. Sá á að vera einn af stofnendum Musterisriddara reglunnar. Þá segist hann hafa hitt Englending í London á svipuðum tíma sem hann kallar læriföður sinn.

Sá á að hafa gengið undir dulnefninu Ríkharður Ljónshjarta en sjálfur segist Breivik hafa verið kallaður Sigurður Krossfari eftir norskum stríðskonungi frá tólftu öld. Breivik heldur því fram að hann hafi gengið í gegnum viðamikil próf til þess að fá aðild að félagsskapnum.

Eins og áður sagði leggur saksóknarinn engan trúnað á þessar fullyrðingar Breiviks og heldur hann því fram að morðinginn sé haldinn ímyndunarveiki á háu stigi. Búist er við því að vitnaleiðslur yfir Breivik taki tvo daga til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×