Innlent

Sigurður: Hávaxtastefna Seðlabankans ein meginástæða hrunsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Einarsson skaut föstum skotum að Seðlabankanum þegar hann bar vitni í dag.
Sigurður Einarsson skaut föstum skotum að Seðlabankanum þegar hann bar vitni í dag. mynd/ gva.
Það eru fjórar ástæður fyrir því að Kaupþing varð eins illa úti í hruninu og raun bar vitni. Þetta sagði Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, fyrir Landsdómi í dag.

Sigurður nefndi i fyrsta lagi hina alþjóðlegu kreppu sem reið yfir. „Þetta er versta kreppa sem hefur komið í um 100 ár. Ég held að það sé langsótt að telja að fyrrverandi forsætisráðherra eða einhver bankastjóri hafi getað gert eitthvað í því," sagði Sigurður.

Sigurður sagði að önnur ástæðan væri „gegndalaus hávaxtastefna Seðlabankans sem hafi neytt almenning og fyrirtæki út í lántökur erlendis," eins og hann orðaði það. Peningamagn í umferð hafi aukist mjög mikið. „Það getur ekki farið öðruvísi en svo að að gengi gjaldmiðilsins hrynur," sagði Sigurður.

Sigurður sagði að þetta væru tvær meginástæður þess að svo fór sem fór. Þriðja ástæðan hafi verið neyðarlögin þar sem kröfuhöfum var mismunað og lögum verið breytt. Í fjórða lagi hafi það verið yfirtaka breskra yfirvalda á Singer & Friedlander. Með þeirri yfirtöku hafi Kaupþing orðið tæknilega gjaldþrota.

Skýrslutakan yfir Sigurði hófst um hálftólf. Það fækkaði dálítið í salnum eftir að Ingibjörg, sem var fyrst til að gefa skýrslu í dag, yfirgaf salinn. Langflestir stjórnmálamennirnir sem voru hér í Þjóðmenningarhúsinu eru farnir. Í staðinn komu fulltrúar frá sérstökum saksóknara sem eru að rannsaka efnahagsbrot sem Sigurður Einarsson og aðrir stjórnendur Kaupþings eru grunaðir um að vera viðriðnir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×