Innlent

Sigurjón: Sameiningarhugmyndir Hreiðars vonlausar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurjón Árnason mætti til skýrslutöku fyrir Landsdómi i dag.
Sigurjón Árnason mætti til skýrslutöku fyrir Landsdómi i dag. mynd/ gva.
Hugmyndir Hreiðars Más Sigurðssonar um sameiningar í bankakerfinu á árinu 2008 voru vonlausar að mati Sigurjóns Árnasonar, fyrrverandi forstjóra Landsbankans. Sigurjón sagði þetta fyrir dómi í dag.

Sigurjón greindi frá því að hann, Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi Glitnis, og Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, hefðu hist í aðdraganda hrunsins til þess að ræða hvernig sameina mætti íslenska banka í því skyni að hagræða í kerfinu.

„Þá kom Hreiðar með vonlausa hugmynd. Það ætti að skipta Glitni í tvennt og Landsbankinn ætti að taka innlenda hlutann, en kaupþing átti að taka erlenda þáttinn," sagði Sigurjón. Allur laus gjaldeyrir hefði hins vegar verið í erlendum eignum Glitnis. Þetta hefði því hentað Landsbankanum afar illa. Sigurjón benti á að Landsbankann hafi ekki vantað lausar krónur við fall bankans heldur lausan erlendan gjaldeyri.

Í umræðum um þann ákærulið sem lýtur að Icesave reikningunum gerði Sigurjón alvarlegar athugasemdir við fundargerðir Seðlabankans. „Það er mikilvægt að hafa í huga að fundargerðir Seðlabankans eru ekki endilega minnispunktar um það sem fram kom á fundum Seðlabankans heldur minnispunktar um atriði sem ýmsir aðilar í Seðlabankanum hefðu viljað að hefði komið fram," sagði Sigurjón. Hann ítrekaði orð sín „Þetta eru ekki fundargerðir. Þetta er eins langt því frá að vera fundargerðir og mögulegt er," sagði Sigurjón.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×