Innlent

Segir Landsbankamenn hafa viljað færa Icesave í dótturfélag

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Saksóknarar Alþingis í Landsdómi í dag.
Saksóknarar Alþingis í Landsdómi í dag. mynd/ gva.
„Ég held að það hafi verið vilji frá bankanum að gera þetta," sagði Jón Þorsteinn Oddleifsson, fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar hjá Landsbankanum, aðspurður um það hvort til hafi staðið að færa Icesave innistæðurnar í Bretlandi úr útibúi yfir í dótturfélag.

Við aðalmeðferð Landsdómsmálsins hafa sum vitnin lýst því að ef til vill hafi ekki verið einhugur á meðal bankastjóranna tveggja, Sigurjóns Árnasonar og Halldórs J. Kristjánssonar, um það hvort færa ætti innistæðurnar í dótturfélag. Miklar eignir hefðu þuft að færast úr móðurfélagi Landsbankans yfir í dótturfélagið ef þetta hefði átt að ná fram að ganga.

Þá benti Jón Þorsteinn á að menn hefðu haft áhyggjur af því að ef eignir Landsbankans færu yfir til annars lögaðila á Bretlandi myndi það mögulega kalla á gjaldfellingarheimild vegna annarra lána bankans. „Það var mat innanhúslögmanna að slík áhætta væri fyrir hendi," sagði Jón Þorsteinn.

Jón Þorsteinn var spurður um það hvort ósamstaða hafi verið á meðal bankastjóranna. Hann sagði að Sigurjón hefði talað mjög umbúðarlaust um þessar áhyggjur af gjaldfellingunni og því að erfitt væri að sjá á eftir eignunum út. „Eins og þetta blasti við mér þá var þetta meira spurning um mismun á því hvernig þeir tjáðu sig," sagði Jón Þorsteinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×