Sport

LeBron og Wade eru að reyna að fá Peyton Manning til að spila með Miami Dolphins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Dwyane Wade.
LeBron James og Dwyane Wade. Mynd/Nordic Photos/Getty
LeBron James og Dwyane Wade, leikmenn Miami Heat í NBA-deildinni í körfubolta, hafa báðir mikinn áhuga á ameríska fótboltanum og hafa nú blandað sér í baráttuna um undirskrift NFL-leikstjórnandans Peyton Manning.

Þeir LeBron og Wade vilja að Peyton Manning semji við Miami Dolphins en það er eitt af fjölmörgum félögum sem vilja semja við Manning eftir að hann hætti hjá Indianapolis Colts.

„Ég er bara að segja að Dolphins vantar leikstjórnanda og Peyton er laus," sagði LeBron James við Sun Sentinel og Dwyane Wade tjáði sig um málið inn á twitter-síðu sinni.

„Ég ætla bara að henda þessu út í loftið. Peyton, þú værir flottur í treyju númer 18 hjá Dolphins. Steve Ross láttu verða að þessu. Gerum þetta af alvöru hjá bæði Marlins og Heat," skrifaði Wade.

„Ég ætla ekki að tala meira um þetta. Ég er búin að segja mína skoðun og nú sjáum við bara í framhaldinu hvað gerist. Ég er leikmaður Miami Heat og vil að öll íþróttalið Miami standi sig hvort sem það sé U, Dolphins, Marlins eða Heat," sagði LeBron James ennfremur.

LeBron James heldur reyndar með Dallas Cowboys í NFL-deildinni en Dwyane Wade er frá Chicago-borg og heldur með Chicago Bears.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×