Innlent

Tengsl þyngdar og blóðsykurs rannsökuð

Þeir sem eru of þungir ættu síður að neyta óhollra skyndibita en þeir sem er í kjörþyngd þar sem blóðsykur þyngri einstaklinga hækkar meira eftir neysluna samkvæmt nýrri íslenskri rannsókn. Ekki er nóg að horfa á kaloríufjölda og fitumagn þegar matvörur er valdar í innkaupakörfuna.

Þátttakendur rannsóknarinnar fengu að bragða á tveimur máltíðum. Annarsvegar laxaborgara í grófu súrdeigsbrauði, með salati og appelsínusafa og hinsvegar beikonborgara og gosdrykk. Þótt ótrúlegt megi virðast innihalda þessar máltíðir jafnmargar hitaeiningar og skiptingin á milli heildarkolvetna, fitu og próteina er sú sama.

„En trefjamagnið er t.d. miklu meira í þessum hérna borgara og fitusýrusamsetningin er allt öðruvísi, mun hagstæðari fitusýrusamsetning í þessum hérna og svo náttúrulega viðbættur sykur aðeins meiri hérna með kókinu," segir Fjóla Dröfn Guðmundsdóttir sem framkvæmdi rannsóknina fyrir meistararitgerð sína í næringarfræði.

Blóðsykur og insúlín í blóði þátttakenda hækkuðu tvöfalt meira eftir neyslu beikonborgaranum en þyngd þeirra sem tóku þátt hafði mikið að segja.

„Munurinn var meiri hjá þeim. Það er kannski betra fyrir þá að fá sér laxaborgara en venjulegan hamborgara upp á efnaskiptin að gera. Hver var munurinn? Hann var svona 50 til 60% prósent hjá þeim sem voru of þungir og svona 30% hjá þeim sem voru í kjörþyngd. Þannig að þetta var alveg heilmikill munur."

Þá voru þátttakendur saddari eftir að hafa borðað laxaborgarann og sextíuprósent sögðust velja hann framyfir beikonborgarann ef máltíðirnar kostuðu það sama. Athygli vekur ekki fékkst nægilega trefjaríkt brauð hér á landi fyrir laxaborgarann, en það sem Fjóla notaði flutti hún sjálf inn til landsins frá Svíþjóð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×