Innlent

Voru um tíma trúlofuð

Erla Hlynsdóttir skrifar

Maður á þrítugsaldri, sem grunaður er um manndráp í Hafnarfirði, var í dag úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald. Hann var um tíma trúlofaður konunni sem hann er talinn hafa orðið að bana. Hún lætur eftir sig tæplega tvítugan son.



Maðurinn mætti fyrir Héraðsdóm Reykjaness í morgun þar sem hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 21. febrúar á grundvelli rannsóknarhagsmuna.



Honum verður einnig gert að sæta geðrannsókn. Hnífur sem gerður var upptækur við Skúlaskeið hefur verið sendur til rannsóknar, auk lífssýna.



Maðurinn er 23 ára gamall og hefur verið í harðri fíkniefnaneyslu í lengri tíma. Neysluna fjármagnaði hann með innbrotum og þjófnaði sem hann hefur verið dæmdur fyrir. Þá var hann fyrir rúmum mánuði dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás, eftir að hann réðist á mann í Gistiskýlinu í Þingholtsstræti, sem ætlað er fyrir heimilislausa.



Enginn var skráður til heimilis í húsinu við Skúlaskeið þar sem atvikið átti sér stað.



Maðurinn var í annarlegu ástandi í gær þegar hann leitaði til lögreglu og sagðist hafa orðið konunni að bana. Lögregla fór strax á staðinn þar sem konan fannst alblóðug eftir að hafa verið stungin með hnífi.



Hún var 35 ára gömul og hafði einnig verið lengi í mikilli fíkniefnaneyslu. Hún og maðurinn höfðu síðustu misseri verið par og voru þau um tíma trúlofuð.



Konan lætur eftir sig tæplega tvítugan son.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×