Sport

Lánið lék ekki við Luck

Luck leiddur af velli eftir leikinn í gær.
Luck leiddur af velli eftir leikinn í gær.
Leikstjórnandinn hæfileikaríki Andrew Luck, sem flestir búast við að verði valinn fyrstur í næsta nýliðavali fyrir NFL-deildina, lauk háskólaferli sínum í nótt með tapi. Háskólinn hans, Stanford, varð þá að játa sig sigraðan gegn Oklahoma State í dramatískum, framlengdum leik. Lokatölur 41-38.

Luck átti frábæran leik fyrir Stanford sem leiddi allan tímann. Stanford gat tryggt sér sigur er leiktíminn var að renna út en hinn arfaslaki sparkari. Jordan Williamson, klúðraði frekar auðveldu sparki. Williamson lét það ekki duga því hann klúðraði aftur sparki í framlengingu. Oklahoma skoraði síðan í kjölfarið og tryggði sér sigurinn.

Luck kláraði 27 af 31 sendingum sínum í nótt og gerði í raun allt rétt. Vörn Stanford var aftur á móti hörmuleg og sparkarinn enn slakari.

Leikurinn var nokkurs konar bronsleikur í háskólaboltanum enda mættust þarna liðin sem talin voru þriðja og fjórða sterkust í boltanum.

Svo má geta þess að sjálfur Tiger Woods stóð á hliðarlínunni með Stanford-liðinu í gær en hann er fyrrum nemandi skólans og var mættur til að veita stuðning rétt eins og kvenkylfingurinn Michelle Wie sem fékk þó ekki að standa á hliðarlínunni með liðinu eins og Tiger.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×