Fastir pennar

Eitt framfaraskref í viðbót

Steinunn Stefánsdóttir skrifar
Stígamót undirbúa nú opnun athvarfs fyrir konur á leið út úr vændi eða mansali. Þessum hópi hefur hingað til að mestu verið sinnt af Stígamótum sem þó hefur ekki veitt þjónustu allan sólarhringinn þannig að húsaskjól hefur ekki staðið þessum hópi til boða. Að auki hefur fórnarlömbum mansals verið sinnt í Kvennaathvarfinu sem er opið allan sólarhringinn.

Þörfin fyrir sérhæft athvarf fyrir konur á leið úr vændi og mansali er rík. Síðustu misseri hafa slík mál verið sýnilegri almenningi en áður vegna þeirra mansalsmála sem upp hafa komið og hafa fengið talsverða umfjöllun í fjölmiðlum. Vandinn er þó mun stærri en umfang þeirra mála því árlega hafa nokkrir tugir kvenna sótt viðtöl hjá Stígamótum vegna reynslu af vændi eða innan klámiðnaðarins.

Opnun sérstaks athvarfs fyrir þennan hóp er umbylting í þjónustunni við hann vegna þess að þessum hópi hefur ekki fyrr staðið til boða úrræði sem er sérsniðin að þeirra reynslu. Að auki er svo hægt að bjóða þeim sem það þurfa búsetu við öruggar aðstæður meðan þær eru að feta sig út úr leyndarheimi vændisins og vinna úr reynslu sinni.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, lýsti í viðtali í helgarútgáfu DV hvernig vændið væri yfirleitt algerlega falinn hluti lífs þeirra kvenna sem það stunda, að enginn viti um það nema vændiskaupandinn, sá sem gerir þær út og svo Stígamótakonur ef þær leita sér hjálpar hjá þeim. Guðrún sagði þær konur sem til Stígamóta leita til að komast út úr vændi vera fullar af sjálfsfyrirlitningu og að flestar eigi það sameiginlegt að eiga reynslu af kynferðislegu ofbeldi áður en þær urðu vændiskonur. Þetta séu því konur sem þurfi langan tíma til að vinna úr reynslu sinni.

Klisjan um að konur hafi valið að starfa á þessum vettvangi, eða í þessari elstu atvinnugrein í heimi, er grófleg einföldun og stenst ekki skoðun samanber orð Guðrúnar um að konur sem hafa stundað vændi eru yfirleitt áður þolendur annars konar kynferðislegs ofbeldis. Klisjan um hamingjusömu hóruna er þó alverst því þvert á móti er iðulega um að ræða konur með brotna sjálfsmynd á mörgum sviðum.

Þeim sem halda fast í þessar klisjur er hollt að spyrja sig þeirrar spurningar hvort þeir óski dóttur sinni, systur eða móður að hafa viðurværi sitt af vændi. Þeir eru líklega fáir sem treysta sér til að svara þeirri spurningu játandi, eða þá hinni hvort þeir álíti að dóttir þeirra, systir eða móðir myndi velja sér það hlutskipti að vera vændiskona. Ef svo er ekki hvers vegna skyldum við þá ætla að aðrar konur óski eftir að vera í þessum sporum?

Opnun athvarfs sem býður sérsniðna þjónustu fyrir vændiskonur og fórnarlömb mansals verður mikið framfaraspor og enn eitt af mögnuðum sporum íslenskra kvennahreyfinga. Líklegt er að það verði til þess að þeim fjölgi sem hafa hugrekki til að leita út úr ofbeldinu og inn í sjálfstætt líf sem þolir dagsins ljós og hægt er að lifa með reisn.






×