Fastir pennar

Betur má ef duga skal

Steinunn Stefánsdóttir skrifar
Í vikunni sem leið birtist hér í Fréttablaðinu áskorun frá nítján einstaklingum þess efnis að innanríkisráðherra skipi rannsóknarnefnd sem fari yfir ferli nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins.

Í áskoruninni er bent á að á árunum 2006 til 2009 hafi rúmlega 70 prósent kærðra nauðgana verið felld niður hjá embætti ríkissaksóknara sem er mun hærra hlutfall en á við um kærur vegna annarra hegningarlagabrota.

Nítjánmenningarnir benda einnig á að á undanförnum mánuðum hafi tveir menn sem gegna lykilstöðum varðandi opinbera meðferð kynferðisbrotamála tjáð sig opinberlega um málaflokkinn; yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar og ríkissaksóknari. Um hafi verið að ræða ummæli sem lýstu ekki bara þekkingarleysi á stöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum heldur einnig fórdómum í þeirra garð. Báðir þessir men sitji enn í embættum sínum. Annar var raunar fluttur til í starfi að eigin ósk en tók aftur við fyrra starfi þremur mánuðum síðar án þess að til kæmi skýring önnur en að til hans ríkti fullt traust.

Ögmundur Jónasson ínnanríkisráðherra segist taka skilaboð nítjánmenninganna alvarlega en kveðst ekki munu verða við áskorun þeirra um að skipa rannsóknarnefnd. Ráðherrann tekur undir sjónarmið nítjánmenninganna um að kerfið eigi að þjóna þeim sem órétti eru beittir. Hann telur þó ekki lausnina á vanda kerfisins liggja í rannsóknarskýrslum heldur viljanum til að taka því sem augljóst sé, að óþægilega fáar kærur eru leiddar til lykta í réttarvörslukerfinu.

Kjarni málsins er þó þegar upp er staðið að yfirvöld hljóta að vilja tryggja brotaþolum, og þá ekki síst brotaþolum í svo viðkvæmum brotaflokki og kynferðisbrot eru, réttarvörslukerfi sem enginn þarf að efast um. Ekki verður séð að sú sé staðan nú.

Yfirlýsingar bæði yfirmanns kynferðisbrotadeildar og saksóknara sem nítjánmenningarnir vísa til eru þess eðlis að þrátt fyrir að þessir menn séu bæði góðir og flinkir embættismenn þá er ekki annað hægt en að efast um heilindi þeirra gagnvart þolendum kynferðisofbeldis. Það er ekki nóg að þeir njóti trausts yfirmanna sinna, þeir verða að njóta víðtækara trausts, trausts þeirra sem til réttarvörslukerfisins þurfa að leita vegna kynferðisbrota.

Það er rétt hjá ráðherra að enginn vandi er leystur með skýrslugerð í sjálfu sér. Hins vegar er ekki fullnægjandi farvegur að þau málefni sem tekin eru til í áskorun nítjánmenninganna séu skoðuð af ráðherra og í ráðuneyti og að vilji sé til að hækka hlutfall sakfellinga í kynferðisbrotum.

Krafan hlýtur að vera sú að málaflokkurinn allur verði yfirfarin (í rannsóknarnefnd eins og nítjánmenningarnir leggja til) með formlegum og faglegum hætti og skýrum markmiðum um það með hvaða hætti megi bæta úr. Sú yfirferð myndi væntanlega skila skýrslu en þó fyrst og fremst raunverulegum og áþreifanlegum úrbótum til handa brotaþolum í nauðgunarmálum.

 






×