Fastir pennar

Þýska spurningin

Jón Ormur Halldórsson skrifar
Þetta var fjölmenn mótmælaganga sem ég lenti óvart inni í fyrir nokkrum árum. Fólkið söng: „Aldrei aftur sterkt Þýskaland." Þetta var þó ekki í Varsjá, Moskvu, Aþenu, Prag eða í neinni þeirra mörgu borga Evrópu þar sem menn eiga vondar minningar um þýskan mátt. Þetta var í Þýskalandi. Og það í íhaldssömustu stórborg landsins, München. Göngumenn sýndust upp til hópa vera þýskir. Ekkert land í veröldinni hefur nokkru sinni gert upp við sögu sína með líkum hætti og Þýskaland.

Pólsk krafaEkkert ríki hefur heldur reynst jafn ófúst til að auka völd sín og það þýska nú. Eins og í mannlífinu vita menn að þeim er síst trúandi fyrir völdum sem mest sækjast eftir þeim. Þýskalandi er treystandi að þeirri reglu. Evrópumenn, ekki síst Pólverjar sem oftar en flestir aðrir hafa lent undir þýsku hernámi, krefjast þess nú að Þýskaland takist á herðar hlutverk leiðtoga í álfunni. Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, kallaði Þjóðverja um daginn hina ómissandi þjóð Evrópu. Hann lýsti þeirri undarlegu stöðu fyrir Pólverja að óttast meira áhugaleysi Þýskalands en afl þess. Við stöndum enn einu sinni frammi fyrir þýsku spurningunni.

Mannskæð spurningHennar hefur verið spurt með mismunandi hætti um aldir. Og svarað með nokkrum af verstu stríðum sögunnar. Staðreyndin er einfaldlega sú að nái þýska menningarsvæðið saman myndar það til muna sterkustu einingu Evrópu. Þess vegna hafa öll stórveldi álfunnar um aldir haft það að markmiði að forða einingu þýskumælandi manna. Þetta hentaði líka oft þýskum ríkjum, stundum Prússum, stundum Austurríkismönnum og svo framvegis. Hið sögulega hlutverk að sundra þýskum þjóðum féll síðast í skaut Margréti Thatcher. Fyrir röskum tuttugu árum reyndi hún að fá Sovétríkin með sér í lið til að koma í vegfyrir einingu Þýskalands eftir fall Berlínarmúrsins. Svarið við þýsku spurningunni fannst hins vegar í því sem Thatcher trúði ekki á frekar en margir á jöðrum álfunnar. Dýpkun Evrópusamrunans.

Greiðsla fyrir sögunaESB hvíldi lengi á pólitísku forræði Frakka og efnahagslegum styrk Þýskalands. Díllinn var einfaldlega sá að Þjóðverjar fengu að efnast gegn því að Frakkar fengju að vera stórveldi. Þegar Þjóðverjar höfðu efnast svo mjög að þýski seðlabankinn fór að stjórna vöxtum í allri álfunni kröfðust Frakkar og fleiri þjóðir þess að þýska markið yrði lagt niður og evran stofnuð. Önnur Evrópuríki fengu þá aðild að seðlabankanum í Frankfurt, sem skipti um nafn og flutti í aðra götu. Þannig varð evran til. Þetta, sagði Kohl kanslari, svona prívat yfir pylsum og bjór, var síðasta afborgun Þjóðverja af skuld stríðsins. Evruna vildu Þjóðverjar ekki en Kohl tók þetta á sitt breiða bak. Hann var síðastur þýskra kanslara til að muna sjálfur skelfingar stríðsins.

Viðkvæmni hins sterkaNú sést glöggt hve mikið af völdum Frakklands byggðist á þessum gamla díl við Þýskaland. Frakkland var svona sterkt vegna síns þýska baklands. Jafnræði er nú ljóslega ekki lengur til staðar. Frakkar eiga ekki margra kosta völ þrátt fyrir snilli franska utanríkisráðuneytisins við að vefa þræði áhrifa um víðan völl. Þýskaland getur lifað án evrunnar. Frakkland eiginlega ekki. En Þýskaland þarf þó enn á Frakklandi að halda. Og líka á Póllandi og öðrum nágrönnum sínum. Þó ekki væri nema sjálfs sín vegna. Þjóðverjar, allt frá íhaldsmönnum til sósíalista, eru nær allir áhugalausir um einmana þýskt stórveldi. Hugmyndin ein vekur angist. Þeir biðja því um ennþá nánari bönd við ríki Evrópu og sterkara ESB. Í þessari viðkvæmni hins sterka er að finna grunninn að því trausti sem nú má finna til Þýskalands víða í Evrópu.

Öðruvísi veldiÞýskaland er líka, og verður, stórveldi af öðru tagi en Bandaríkin og Kína eru nú eða Bretland var. Nýleg saga landsins er svo skelfileg að hún á fáar hliðstæður nema helst í framgöngu Japana í Kína og Kóreu. Menn þurfa þó ekki að fara til Yasukuni-skrínsins og safnsins í Tókýó til að sjá hve sérstætt uppgjör Þjóðverja við sögu sína er. Það nægir að fara til London, Brussel, Moskvu, Parísar eða Washington til að sjá dæmi um afsakanir og afflutning á skelfilegri sögu sem þjóðir um allar álfur ná sér seint af og munu aldrei gleyma eða fyrirgefa.

Máttur sannleikaSaga tuttugustu aldar og sekt þeirra seku er hins vegar til miðju í þýsku þjóðlífi og menntakerfi. Dóttir mín fékk sína fyrstu fræðslu um stríðið fimm ára gömul í leikskóla í Berlín. Í anddyri nálægs barnaskóla hanga myndir af börnum úr hverfinu sem voru myrt fyrir þjóðerni sitt. Á ljósastaurum í hverfinu má lesa greinar úr þjóðernislögum nasista. Í gangstéttina eru greyptir skildir með nöfnum myrtra gyðinga. Þetta er lifandi og daglegur veruleiki. Hann er skelfilegur en kennir um samtíðina ekki síður en fortíðina. Og kennir um margt af því sem mestu skiptir á okkar tímum.

Markmið Þjóðverja í utanríkismálum eru líka að hluta til önnur en algengast er. Því geta nágrannar þeirra fagnað. Og til þess geta Íslendingar litið. Þeir eiga trausta vináttu Þýskalands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×