Fastir pennar

11.09.2001

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Snjöll þessi ábending hjá Chomsky: að rifja það upp að hinn ellefta september árið 1973 steyptu Bandaríkjamenn réttkjörnum forseta Chile, sósíalistanum Salvador Allende og leiddu til valda morðóða herforingja sem bjuggu í haginn fyrir taumlausa auðhyggju. Bandaríkjamenn voru á síðustu öld lávarðar heimsins og gerðu það sem þeim sýndist í krafti auðs og valda og þess ósigranlega náðarvalds sem þeir höfðu, og hafa sumpart enn, í menningarlegum efnum.

En samt: ég man hvað mér varð mikið um þær fréttir fyrir tíu árum að ráðist hefði verið á Bandaríkin. Það hvarflaði aldrei að mér að þetta hefði verið slys. Ég hélt að það væri komið stríð.

Með Ameríku í blóðinuVið sem fæddumst í þessum heimshluta upp úr miðri síðustu öld fengum Ameríku í blóðið. Það varð ekki umflúið. Þaðan kom músíkin, kvikmyndirnar, sjónvarpið, rýmiskenndin, frelsiskrafan, svo mörg viðmið – svo margar menningarlegar tilvísanir – gott ef þeir fundu ekki upp unglinginn þar.

Þaðan kom meira að segja líka andstaðan við Ameríku – að einhverju leyti. Víetnamstríðið og framferði bandarískra stjórnvalda og auðhringa víða um lönd magnaði vissulega upp andúð hjá okkur mörgum, og þegar við gengum þessar göngur frá Keflavík sem öllum öðrum en okkur fundust fullkomlega óskiljanlegar vorum við sumpart að spegla skoðanasystkini í Bandaríkjunum sem fóru út á göturnar. Bob Dylan og John Steinbeck gerðu fleiri unglinga róttæka en til dæmis Lúðvík Jósepsson eða Leóníd Brésneff eða hvað þeir nú hétu þessir kallar að austan sem fóru með völd undir merkjum sósíalisma. Þetta var að vísu stundum ístöðulítil róttækni og kannski snerist hún að einhverju leyti um fatastíl og annað þvíumlíkt sem fólk heldur stundum að sé yfirborðsmennska en henni fylgdi engu að síður trúin á spurningamerkið eins og Einar Már Guðmundsson hefur orðað það; sterk andúð á valdi og valdamönnum – sem endaði reyndar hjá sumum í ást á valdófreskjunni Maó formanni.

Við heyrðum um Ameríska drauminn og sáum margar ádeilumyndir um það hvernig hann hefði snúist upp í martröð en þessi draumur var samt stærri en svo; hann snerist samt ekki bara um neysluhyggju, ísskápaeign og sífellt stærri bíla – heldur ekki síður um vegsömun einstaklingsins og rétt hans til að þroska sig. Ádeilumyndirnar snerust oft um einstakling sem gerir uppreisn gegn valdi – þær voru um rétt tossans til að fylgja eftir hugmyndum sínum um heiminn, rétt hins undirokaða til að varpa af sér oki sínu og ganga út í daginn frjáls. Ræða eins merkasta sonar þessarar þjóðar á síðustu öld, Martins Luthers King, um drauminn sinn um mennina sem bræður og systur er líka útmálun á Ameríska draumnum.

Sum sé: manni fannst þennan dag fyrir tíu árum mjög sterkt að ráðist hefði verið á „okkur". Það rann upp fyrir manni hversu mótaður maður er af Bandaríkjunum og hversu vænt manni þykir um Bandaríkin, þrátt fyrir allt. En það leitaði líka á mann hversu „amerísk" árásin var. Hún var svo mikið sjónarspil – hún var svo mikið show – þetta var sjónvarpsárás, gerð til að vera sýnd aftur og aftur í sjónvarpi. Þannig hæfði árásin Bandaríkin í hjartastað, ekki einungis með því að ráðast svo óvænt og skyndilega á sjálfa kraftbirtingu hins ameríska auðmagns í öllu sínu veldi heldur líka með því að gefa árásinni svo blygðunarlaust yfirbragð Hollywood-myndar.

Þarna lauk Amerísku öldinni. Við tók millibilsástand sem að einhverju leyti stendur enn. Þeir sem stóðu fyrir árásinni náðu fram markmiðum sínum, náðu að veikla Bandaríkin svo mjög að þau munu aldrei verða söm. Viðbrögðin voru pavlovísk og sennilega akkúrat þau sem að var stefnt: það náðist að lokka Bandaríkin ofan í kviksyndið fyrir botni Miðjarðarhafs, þar sem þau sökkva sífellt dýpra; þrengt var að réttindum einstaklinganna með sérstökum neyðarlögum; þeir hryðjuverkamenn sem náðust voru ekki leiddir fyrir dómara heldur fluttir á afvikna staði (hingað?) og pyntaðir þar; þannig var grafið undan réttarríkinu og Bandaríkjamönnum gert erfiðara að tala í nafni mannréttinda; þarna var vakin stjórnlaus heift ráðvilltrar þjóðar sem fékk sínar ógeðslegustu birtingarmyndir í Abu Ghraib fangelsinu í Bagdad. Bandaríkin eru eins og blindaður risi sem slær í allar áttir og eyðir þannig orku sinni í vindhögg. Ómarkvissar stríðsaðgerðir Bandaríkjamanna (og okkar!) hafa kostað milljónir mannslífa og leitt ómældar hörmungar yfir þær þjóðir sem þær hafa beinst gegn, og þar að auki kostað slíkar fúlgur að Bandaríkjamenn eru nú upp á náð og miskunn Kínverja komnir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×