Erlent

Dóttir Gaddafís eignaðist barn

Á veggspjaldi er lýst eftir Múammar Gaddafí.
nordicphotos/AFP
Á veggspjaldi er lýst eftir Múammar Gaddafí. nordicphotos/AFP
Dóttir Gaddafís hefur eignast barn í Alsír, en þangað fór hún ásamt móður sinni og tveimur bræðrum á mánudag. Talsmaður Alsírsstjórnar segir fjölskyldunni veitt hæli vegna þess að dóttirin var barnshafandi. Uppreisnarmenn í Líbíu segja óskiljanlegt að fjölskylda hafi fengið hæli í Alsír.

„Við erum staðráðnir í að handtaka og færa fyrir rétt alla Gaddafí-fjölskylduna, þar með Gaddafí sjálfan," segir Mahmoud Shammam, talsmaður uppreisnarmanna. Enn er ekkert vitað hvar Gaddafí er niðurkominn þótt ýmsar tilgátur hafi verið nefndar.

Roland Lavoie, talsmaður NATO, segir að bandalagið muni áfram styðja við uppreisnarmenn í Líbíu. Það verði gert meðan almenningur er enn í hættu, jafnvel þótt svæðið í kringum höfuðborgina Trípólí sé orðið „frjálst að mestu", eins og hann orðaði það. Hann segir uppreisnarmenn eiga í viðræðum við stuðningsmenn Gaddafís í borginni Sirte, þar sem stjórnarherinn sýnir engin merki uppgjafar. Mustafa Abdel Jalil, leiðtogi bráðabirgðastjórnar uppreisnarmanna, segir að þeim viðræðum verði ekki haldið áfram lengur en fram á laugardag, þegar lokahátíð föstu-mánaðar múslima lýkur. - gb



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×