Fastir pennar

„Súrra sifja þorri“

Þorsteinn Pálsson skrifar
Standmynd Jóns Sigurðssonar forseta á Austurvelli er dagleg áminning um að við eigum þjóðhetju. Það er góður vitnisburður um þjóðrækni Íslendinga að minnast þess með margvíslegu móti og myndarskap að tvö hundruð ár eru nú frá fæðingu hans.

Nokkrum skrefum vestan við Austurvöll er standmynd Skúla Magnússonar landfógeta. Í desember verða þrjú hundruð ár frá fæðingu hans. Engar spurnir eru af því að þeirra merku tímamóta verði minnst með þeim hætti sem efni standa til.

Fyrir hundrað árum þótti viðeigandi að minnast fæðingardaga beggja þessara höfuðforvígismanna endurreisnar Íslands á átjándu og nítjándu öld. Báðir skildu þeir að verslunarfrelsið var lykillinn að framförum. Fyrir baráttu Skúla fógeta varð verslunin frjáls öllum þegnum Danakonungs. Fyrir baráttu Jóns forseta varð verslunin alfrjáls við allar þjóðir.

Í tilefni þessara tveggja tímamótadaga fyrir heilli öld þótti mönnum rétt og skylt að gera meir úr verslunarfrelsinu en nú virðist vera. Á því minningarári frelsisforkólfanna sýndist sumum það vera svolítil þversögn að Alþingi taldi þá rétt að kanna hvort tiltækilegt væri að auka tekjur ríkissjóðs með því að gera innflutning á kolum, steinolíu og tóbaki háðan einkarétti.

Sams konar þverstæða birtist nú í því að Alþingi frestaði í sátt og samlyndi fyrir rúmri viku að ákveða með lögum hvernig innleiða á frjálsa verslun með gjaldeyri að nýju. Ástæðan var tímaskortur fyrir frelsishátíðina sem var í vændum. Sá kaldi pólitíski veruleiki má vel heita „súrra sifja þorri“ svo notað sé tungutak Eggerts Ólafssonar um sambúðartíma þjóðar og einokunar.

Skugginn á frelsishátíðinni

Ógerningur er að geta sér til um á hvern veg liðnar frelsishetjur hefðu litið á mál samtímans ef þær væru nú uppi. Í gegnum tíðina hafa menn þó brugðið nafni Jóns forseta fyrir sig í margvíslegum tilgangi. Svo kynlegt sem það er notuðu menn jafnvel nafn hans sem sverð og skjöld í baráttu gegn þátttöku Íslands í Fríverslunarsamtökum Evrópu.

Fram hjá þeirri staðreynd verður ekki litið nú að sá skuggi fellur á hátíðahöldin að frelsi fólks og fyrirtækja til þess að eiga óhindruð viðskipti í gjaldgengri mynt er verulega takmarkað. Upplausn gjaldeyrishaftanna er grundvallarmál. Þau takmarka framfarasókn þjóðarinnar eftir sömu lögmálum og þeir verslunarfjötrar sem Skúli fógeti og Jón forseti áttu stærstan þátt í að leysa.

Eftir hrun gjaldmiðilsins varð ekki umflúið að grípa til tímabundinna ráðstafana af þessu tagi. Og viðurkenna verður að lausnin er ekki einfalt úrlausnarefni. Tilraunir eru að sönnu hafnar með aðgerðir sem hugsaðar eru til að auðvelda afnám þessarar frelsisskerðingar. Það er lofsvert.

Áhyggjuefnið er hins vegar að hvorki ríkisstjórnin né stjórnarandstöðuflokkarnir hafa sýnt fram á með sannfærandi hætti að samstaða geti orðið um heildstæða efnahagsstefnu sem gerir þetta mögulegt í raun og veru og þannig að hald sé í til frambúðar. Það sem verra er: Hvorug fylkingin á Alþingi hefur lagt fyrir þjóðina sannfærandi áætlanir um að hún geti byggt verslun sína og viðskipti við aðrar þjóðir á stöðugri og gjaldgengri mynt jafnvel þó að höftunum yrði aflétt.

Frelsi fólksins

Hátíðarræður á minningardögum þessa árs hafa sannarlega mikið gildi. Hitt skiptir þó öllu meira máli að menn geri sér grein fyrir að frelsisbaráttan er ævarandi. Hún er ekki föst í því fari sem Jón forseti skildi við hana og því síður í því fari sem Skúli fógeti hvarf frá. Allt skipulag verslunar og viðskipta og samstarfs við aðrar þjóðir þarf að ráðast af alþjóðlegu umhverfi og þörfum hvers tíma.

Frelsi fólksins til viðskipta sín á milli og við aðrar þjóðir er enn sem fyrr forsenda framfara. Nútíminn kallar hins vegar á meiri samvinnu þjóða til þess að viðskipti geti gengið jafn greiðlega og framfarakröfurnar kalla á. Í þessu ljósi er það dapurleg staðreynd að lögeyrir Íslendinga er nú ótrúverðugri undirstaða í milliríkjaviðskiptum en þeir höfðu á fyrstu áratugum verslunarfrelsisins.

Vel fór á því að stofna á hátíðarfundi Alþingis háskólastöðu til að stýra ráðstefnum í tengslum við fæðingarstað Jóns forseta á Hrafnseyri. Hitt væri þó stærra í sniðum ef forystumenn Alþingis gætu á afmælisárinu sameinast um trúverðuga stefnu sem leyst gæti verslunarfjötrana af fólkinu og tryggt landinu viðskiptaumhverfi þar sem það stendur jafnfætis helstu samkeppnisþjóðunum bæði í Evrópu og í öðrum álfum. Því frelsi fólksins má ekki gleyma á þessu ári. Velsældin og velferðin velta á því.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×