Skoðun

Skynsemi eða tilfinningar?

Gylfi Zoëga skrifar
Samninganefnd Íslands undir forystu Lee Buchheit hefur fært sterk rök fyrir því að Íslendingar staðfesti nýgerðan samning um ríkistryggingu á skuldbindingum innlánatryggingasjóðs í stað þess að hætta á málaferli. Höfnun samningsins mun tefja fyrir aðgengi íslenska ríkisins og innlendra stofnana að erlendu lánsfé sem er nauðsynlegt til þess að Ísland geti staðið á eigin fótum án aðstoðar Norðurlanda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Væntanlegur kostnaður við samninginn er metinn á 30 milljarða króna sem er álíka upphæð og kostnaður við byggingu tónlistarhússins í Reykjavík eða sem svarar tíu vikna sparnaði þjóðarinnar um þessar mundir.



Til þess að mæta óvissu um endanlegar byrðar ríkissjóðs er samningurinn sérstaklega gerður með það í huga að greiðslubyrðin verði ekki of mikil. Á móti mæla þau tilfinningarök að ekki eigi að greiða skuldir eigenda Landsbankans. En þá gleymist að féð sem bankarnir dældu inn í íslenska hagkerfið skilaði sér í stóraukinni fjármunaeign, betri skuldastöðu ríkissjóðs og góðum lífskjörum árin fyrir 2008. Eftir standa ný borgar hverfi, vegir og sundlaugar sem erlendir kröfuhafar munu að verulegu leyti á endanum bera kostnað af. Það vill svo til að þeir sem ganga lengst í að mæla gegn samþykki samningsins eru margir hverjir sömu aðilar og gáfu ríkisbankana ævintýramönnum og leyfðu þeim að skuldsetja sig svo mikið að tjón erlendra aðila vegna falls þeirra nemur yfir 7000 milljörðum króna sem er hærri upphæð en núvirt verðmæti fiskafla á Íslandsmiðum um alla framtíð margfölduð með þremur.



Með því að samþykkja samninginn er ekki verið að greiða skuldir þessara óreiðumanna heldur að tryggja að það tjón sem þeir ollu erlendum innstæðueigendum umfram íslenska verði bætt. Svo endurreisn efnahagslífsins geti haldið áfram í friði við nágranna okkar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×