Innlent

Geislavirkni mælist á Íslandi

Geislavirkni frá kjarnorkuverinu í Fukushima hefur nú mælst í andrúmsloftinu hér á landi. Er Ísland fyrsta Evrópuríkið þar sem geislavirknin hefur mælst eftir jarðskjálftann í Japan.

Mengunin barst yfir Norður-Ameríku og til Atlantshafsins. Agnirnar eru mjög smáar og ekki taldar skaðlegar heilsu fólks.

Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins, segir ástæðulaust með öllu að óttast skaðsemi geislavirkni hér á landi eða á öðrum stöðum í Evrópu. Í tilkynningu frá Geislavörnum ríkisins segir að staðfest sé að örlítil geislavirkni frá kjarnorkuverinu í Fukushima hafi mælst í mælistöð sem stofnunin rekur í Reykjavík og gera megi ráð fyrir að geislavirk efni mælist áfram á Íslandi á næstu dögum og vikum.

„Efnin geta orðið mælanleg um allan heim (svipað og aska frá Eyjafjallajökli) en geislun frá þeim á fjarlægum slóðum er hverfandi og heilsufarsleg áhrif þeirra engin,“ segir í tilkynningunni. „Gera má ráð fyrir að geislavirknin geti orðið 1/1000 til 1/10000 hluti þess sem mældist í Evrópu eftir slysið í Chernobyl 1986 en þá mældist mjög lítil geislavirkni á Íslandi.“

Alls eru 63 stöðvar í heiminum sem mæla geislavirkni.- sv
Fleiri fréttir

Sjá meira