Skoðun

Land­helgis­gæslan á Suður­nes

Eygló Harðardóttir skrifar

Ríkisstjórnin hélt nýlega fund á Suðurnesjum þar sem samþykkt var aðgerðaáætlun til að takast á við hið mikla atvinnuleysi sem þar ríkir. Þar var innanríkisráðherra falið að skoða vandlega kosti þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðið á Miðnesheiði og að gerð yrði hagkvæmniathugun á þeim kosti. Niðurstöður eiga að liggja fyrir í byrjun febrúar.

Hugmyndin um flutning Landhelgisgæslunnar á Suðurnesin er ekki ný af nálinni og voru þingsályktunartillögur þess efnis fluttar á 116. löggjafarþingi og 130. löggjafarþingi af þingmönnunum Árna R. Árnasyni og Hjálmari Árnasyni, en voru ekki útræddar.

Höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar eru í Reykjavík. Þar er skrifstofuhald, þar liggja 3 skip hennar á milli verkefna og þar er flugkostur hennar geymdur, flugvél og tvær þyrlur. Hjá stofnuninni starfa um 150 manns auk tuga nýrra starfsmanna frá Varnarmálastofnun.

Oft getur verið erfitt að flytja heila stofnun, en ýmislegt mælir með því á þessum tímapunkti. Frá og með síðustu áramótum tók Landhelgisgæslan við stórum hluta verkefna Varnarmálastofnunar sem staðsett var á gamla varnarliðssvæðinu á Suðurnesjum. Framundan er því mikið starf hjá starfsmönnum við að sameina og aðlaga verkefni þessara tveggja stofnana í nýja heild og gæti flutningur í nýrri og betri aðstöðu verið mikilvægur þáttur í að byggja upp Landhelgisgæsluna.

Varnarmálastofnun bjó yfir góðum húsakosti sem gæti hentað mjög vel fyrir starfsemi Landhelgisgæslunnar, en fram hefur komið í máli forstjóra gæslunnar að húsakostur stofnunarinnar gæti verið betri. Besti flugvöllur landsins er staðsettur á Suðurnesjum. Hafnaraðstaða er þar næg og varðskipin væru óneitanlega nokkru nærri almennum miðum en í Reykjavíkurhöfn. Síðast en ekki síst þá hafa íbúar svæðisins mikla reynslu og þekkingu af því að þjónusta starfsemi af þessu tagi. Því eru bæði öryggis- og rekstrarleg rök sem mæla með flutningi. Til viðbótar eru mikilvæg byggðarök. Hvergi hefur atvinnuleysi verið meira en á Suðurnesjum enda skildi brottför varnarliðsins, hrun byggingageirans og bankakreppan eftir svöðusár á atvinnulífi svæðisins.

Fulltrúar stjórnmálaflokka hafa lýst sig fylgjandi flutningi Landhelgisgæslunnar og ályktaði félagsfundur VG á Suðurnesjum síðast um málið í október 2010 þar sem stjórnvöld voru hvött til að flytja Landhelgisgæsluna og starfsemi henni tengda á Suðurnesin.

Því hvet ég innanríkisráðherra til taka af skarið og styðja flutning Landhelgisgæslunnar á Suðurnesin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×