Handbolti

Guðmundur: Trúi að við séum með réttu lausnirnar fyrir þeirra varnarleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari segir að Ísland þurfi að spila mjög vel til að vinna sigur á Ungverjum á HM í Svíþjóð í kvöld.

Þetta sagði hann í samtali við Hörð Magnússon íþróttafréttamann sem er staddur í Linköping í Svíþjóð. Leikur Íslands og Ungverjaland verður í Norrköping í kvöld.

„Í gær fórum við yfir varnarleikinn okkar og æfðum hann fyrir leikinn gegn Ungverjum. Í dag einbeittum við okkur að sóknarleiknum, að spila bæði einum færri og einum fleiri. Við fórum líka yfir það hvernig við spilum með því að setja mann inn á í vesti," sagði Guðmundur á æfingu íslenska liðsins í gær.

„Mér finnst að það sé full einbeiting í hópnum en við þurfum að sýna það fyrst og fremst inn á vellinum. Ungverjar eru með mjög gott lið og koma hingað til leiks pressulausir. Þeir eru þó með frambærilega leikmenn í öllum stöðum."

„Þetta er lið sem við þurfum að hafa mjög mikið fyrir að sigra en við getum gert það ef við spilum vel," sagði þjálfarinn sem hefur trú á því að Ísland sé með réttu svörin við varnarleik Ungverjanna.

„Ég á von á því að við séum með réttu lausnirnar fyrir þeirra vörn. Það er aldrei að vita fyrir fram en ég hef trú á því."

Spurður um markmið sín og íslenska liðsins segir Guðmundur að fyrsta mál á dagskrá sé að standa sig vel í riðlakeppninni.

„Það er ekkert leyndarmál að við þurfum að fara með sem flest stig inn í milliriðilinn. Það er afar mikilvægt. Þegar þangað er komið setjum við okkur ný markmið en annars einbeitum við okkur að einum leik í einu."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×