Viðskipti innlent

Ríkir Íslendingar kaupa lúxusbíla

Sala á bílum eins og Land Cruiser og Porsche Cayenne fer greitt af stað á árinu. Mynd/GVA
Sala á bílum eins og Land Cruiser og Porsche Cayenne fer greitt af stað á árinu. Mynd/GVA
„Sem betur fer er fullt af fólki sem á pening," segir Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota.

Sala á nýjum bílum hefur farið nokkuð greitt af stað þessa fyrstu viku ársins. Alls hafa 37 bílar selst, en af þeim eru fjórtán sem geta talist lúxusbílar. Þá er átt við bíla á borð við Audi, Porsche Jeep Cherokee og síðast en ekki síst Toyota Land Cruiser, en fjórir slíkir hafa selst í vikunni á níu til tólf milljónir króna hver.

Páll segir Land Cruiserinn hafa selst vel undanfarin misseri, á meðan smærri bílar seljist ekki eins vel. „Hann er sá bíll sem seldist best á landinu til einstaklinga," segir Páll.

Á meðal þess sem orsakar góða bílasölu er að um áramót var lögum um vörugjöld breytt þannig að gjöld lækka á bílum með minni skráða losun á koltvísýringi. Þannig hefur verð lækkað á ýmsum bílum, en þó mest í krónum talið á dýrum lúxusbílum.

Fréttastofa Stöðvar 2 greindi til að mynda frá því í vikunni að verð á Porsche Cayenne jeppanum lækkaði um allt að milljón krónur. Markaðurinn var ekki lengi að taka við sér en fjórir bílar hafa selst á árinu. Land Cruiser lækkar ekki jafn mikið. „Hann fer úr 45% vörugjaldaflokki í 44% þannig að hann er að lækka um 50 þúsund kall. Vinsælasti bíllinn," segir Páll.

Minni bílar seljast minna en áður og Páll segir ástæðuna fyrir því vera að hópurinn sem keypti þá hafi minni fjárráð en áður. „Þeir sem eru að kaupa bíla eru fyrst og fremst þeir sem hafa sparað og eiga pening. Og þeir kaupa stærri bíla."

atlifannar@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×