Erlent

Lögreglan staðfestir að minnst 10 hafi fallið í skotárásinni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Allt lék á reiðiskjálfi í Osló þegar sprengjan sprakk. Mynd/ afp.
Allt lék á reiðiskjálfi í Osló þegar sprengjan sprakk. Mynd/ afp.
Við höfum fengið upplýsingar um það að tíu hafi fallið, en við búumst við því að tala fallinna munu hækka, segir norska lögreglan í fréttatilkynningu um skotárásina í Útey í dag.

Norska ríkissjónvarpið og Verdens Gang höfðu eftir vitnum í dag að á þriðja tug manna væru látnir. Norska Aftenposten segir að 17 manns hafi verið fluttir á sjúkrahús. Þessu til viðbótar er svo staðfest að sjö fórust í sprengjuárás í miðhluta Oslóar.

„Miðað við það sem ég hef séð hafa minnst fjórir verið skotnir og drepnir," segir umdæmisstjóri ungliðahreyfingar norska Verkamannaflokksins í Þelamörk.

Maðurinn sem skaut að fólkinu var klæddur eins og lögreglumaður og sagðist vera að fara út í eyna vegna sprengjunnar sem sprakk í stjórnarráðshverfinu. Hann er Norðurlandabúi. Hann hefur verið handsamaður.

Enn er grunur um að sprengja geti leynst í Útey og mun sprengjusveit rannsaka svæðið. Vitni, sem lögreglan telur ástæðu til að treysta, gáfu ábendingar um sprengjuna að sögn Aftenposten. Norska ríkissjónvarpið fullyrðir raunar að sprengiefni hafi þegar fundist í bíl í eynni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×