Innlent

Mikill meirihluti andvígur því að Geir verði sóttur til saka

Mikill meirihluti landsmanna er andvígur því að höfða mál gegn Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra fyrir Landsdómi. Afstaða fólks er þó ólík eftir því hvaða stjórnmálaflokk það styður.

Í könnun sem MMR gerði dagana 9. til 15. júní var spurt: Ertu fylgjandi eða andvígur því að höfðað hafi verið sakamál fyrir Landsdómi gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og oddvita Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, vegna refsiverðrar háttsemi hans í embættisfærslu sinni á árinu 2008?

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 67 prósent annað hvort mjög andvígur eða frekar andvígur málaferlum gegn Geir, en 34,3 prósent sögðust því annað hvort mjög fylgjandi eða frekar fylgjandi. Mikill munur er á afstöðu fólks eftir stuðningi þess við stjórnmálaflokka.

Þannig segjast 91,7 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins vera andvígir málaferlunum. 84,7 prósent kjósenda Framsóknarflokksins, 45,9 prósent kjósenda Samfylkingarinnar og 26,6 prósent kjósenda Vinstri grænna eru einnig á móti málaferlunum gegn Geir.

Sömuleiðis kemur ekki á óvart að mestur stuðningur við málaferlin er meðal kjósenda Vinstri grænna, en 73,4 prósent kjósenda flokksins telja rétt að ákæra Geir.

Þá er einnig munur á afstöðu fólks eftir aldri. Í aldurshópnum 18 til 29 ára eru 55,4 prósent á móti málaferlunum gegn Geir, en í aldurshópnum 50 til 67 ára eru 70 prósent á móti málaferlunum.  Ekki er teljandi munur á afstöðu kynjanna.

Þá er ekki sláandi munur á afstöðu fólks eftir tekjum, þótt meiri stuðningur sé við málaferlin hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×