Fótbolti

Bjarni: Reynir á hversu vel við þekkjumst

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Bjarni Þór Viðarsson landsliðsfyrirliði var ánægður með að vera loksins kominn á leiðarenda með íslenska U-21 landsliðinu.

Liðið kom seint í gærkvöldi til Álaborgar eftir langt ferðalag um daginn. Liðið missti reyndar af æfingu sem átti að vera í morgun vegna bleytu á æfingavellinum en Bjarni sagði stemninguna engu að síður góða.

„Menn eru kannski þreyttir eftir langt og erfitt ferðalag en við horfum á það jákvæða. Stemningin í hópnum er fín núna,“ sagði Bjarni við Vísi en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

Þeir Kolbeinn Sigþórsson og Gylfi Þór Sigurðsson eru báðir veikir en Bjarni hefur ekki áhyggjur af því.

„Auðvitað er það ekkert frábært en við erum með fínt læknateymi. Við reynum bara að vera jákvæðir.“

Ísland mætir Hvíta-Rússlandi í fyrsta leik sínum á laugardaginn í Árósum.

„Við stefnum á að ná alla vega tveimur góðum æfingum fyrir leik og ég hef enga trú á öðru en að allir verði með á æfingunum og í toppformi.“

„Núna reynir mikið á hversu vel við þekkjumst og ég held að það hjálpi gífurlega hvað við erum búnir að vera lengi saman og spila upp öll yngri landsliðinu. Það á eftir að hjálpa okkur mikið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×