Innlent

Gosstrókurinn er lægri en óróinn eykst

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur (fyrir miðju) flaug yfir gosstöðina í gær með flugvél Landhelgisgæslunnar ásamt Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra. Fréttablaðið/Daníel
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur (fyrir miðju) flaug yfir gosstöðina í gær með flugvél Landhelgisgæslunnar ásamt Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra. Fréttablaðið/Daníel
Gosvirkni í eldstöðinni á Eyjafjallajökli var minni í gær en áður og fór gosmökkurinn ekki jafn hátt og síðustu daga. Gosóróinn óx hins vegar, og er mjög erfitt að ráða í þýðingu þessara breytinga, segir Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

„Það fór ekki milli mála að strókurinn var talsvert minni en hann hefur verið," sagði Páll, en hann flaug yfir gosstöðvarnar í gær með flugvél Landhelgisgæslunnar. Með minni gosmekki berst minna af ösku frá gosstöðinni.

Útreikningar á magni gosefna sem eldstöðin hefur spúið upp á yfirborðið benda til þess að rúmlega 700 tonn af gosefni hafi komið upp á hverri sekúndu fyrstu þrjá sólarhringana sem gosið varði.

Um 140 milljón rúmmetrar af gosefnum hafa farið út í andrúmsloftið frá eldstöðinni. Það myndi nægja til að fylla um 54 þúsund sundlaugar á stærð við Laugardalslaugina. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×