Fastir pennar

Nýtt skringibann?

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Um árabil voru Íslendingar af ýmsum taldir taldir meðal helstu skringiþjóða Evrópu út af fáránlegum lagaboðum sem endurspegluðu ekki endilega meirihlutavilja þjóðarinnar, heldur voru til marks um þann útbreidda hugsunarhátt haftaþjóðfélagsins að tryggast væri að banna það sem einhvern kynni að styggja væri það leyft.

Alræmdustu bönnin af þessu tagi voru náttúrlega bjórbannið og bannið við hundahaldi í þéttbýli. Við lentum í því nokkur um daginn að útskýra fyrir velviljuðum og áhugasömum Hollendingum þetta bjórbann á meðan sopið var á Kalda og maður heyrði hvað þetta hljómaði allt afkáralega - ekki síst þegar kom að því að segja frá morgundrykkju þjóðarinnar á Fríhafnarbarnum forðum tíð og svo drykknum „Beer-Likeness". Bjórbann átti sér kannski vissar sögulegar forsendur og jafnvel skýringar í baráttu verkalýðshreyfingar og annarra framfaraafla við þjóðarsjúkdóminn alkóhólisma en bannið við hundahaldi í þéttbýli hefði verið ennþá erfiðara að útskýra. Löngum var látið að því liggja að bannið væri af umhyggju sett fyrir hundunum sjálfum, þeim „liði svo illa" og „ættu ekki heima" í borgum. Þetta var hugsunarháttur úr sveitinni þar sem hundurinn fékk aldrei að koma inn í hús.

Köttur eða kattlíkiHvort tveggja bannið vitnar um óöryggi þjóðar að fóta sig í nýju samfélagi. Þetta var fólk sem vissi ekki alveg hvernig borg ætti að vera. Og fannst það að vera með hund inni í miðri borg ámóta fáránlegt og að hafa kýr á beit í garðinum hjá sér. Það hafði ekki hundsvit á hundum.

Þessi hugsunarháttur er arfur frá Descartes - þess sem hugsaði og var því til. Hann leit svo á að dýrin væru vélar, eins og raunar við mennirnir líka, en við værum hins vegar með sál, sem þau væru ekki. Þegar dýrið emjaði af sársauka ætti það ekki að snerta okkur frekar en ískur í vélbúnaði. Þessi hugsunar­háttur hefur verið lífseigur og áhrifaríkur - ekki síst á tilraunastofum þar sem mikilli hugkvæmni hefur verið beitt við að kvelja varnarlaus dýr.

Ekki er gott að segja hvort hið öfugsnúna andrúmsloft í þjóð­félaginu veldur því, en nú virðist sem dýrabönnurum ætli að vaxa ásmegin á ný. Nú virðist komið til valda fólk á Selfossi (og jafnvel Kópavogi) sem stendur í þeirri meiningu að hægt sé að setja ólar á ketti. Á Selfossi hafa í raun og veru verið settar reglur sem eiga að stemma stigu við svokallaðri „lausagöngu katta" eins og einhvern veginn öðruvísi ganga katta sé hugsanleg. En köttur í bandi er meira eins og kattlíki en raunverulegur köttur.

Maður les stundum átakanlegar lýsingar fólks af því hvernig aðvífandi „villikettir" koma í garðinn manns og gera þar stykki sín og lágmarks krafa sé að „eigendurnir" komi og hreinsi óþverrann upp. Engu er líkara en að fólk upplifi garðinn sinn sem stofu með skínandi parketi eða sótthreinsaða læknastofu en ekki sjálfa jörðina með sinni hringrás sem notar skítinn sem áburð - meira að segja skítinn úr ormunum sem við nefnum mold.

Staður í sköpunarverkinuKettir og hundar eru ólík dýr. Hundar eru hjarðdýr þar sem einn er foringinn og aðrir fylgja honum. Þegar hundurinn kemur í fjölskyldu upplifir hann hana sem slíka hjörð og sýnir því oftast nær einum aðila skýlausa hollustu. Kötturinn er meiri einfari og samband hans við manninn er flóknara og einkennilegra og má líkja við einhvers konar sáttmála. Hann hefur eflaust laðast að manninum vegna þess að í kringum hann hafa verið ýmis smádýr sem hann gat veitt og manninum stóð stuggur af - þar var hægt að orna sér við eldinn og maðurinn strauk honum. Maðurinn fékk út úr þessu sambandi öflugan músa- og rottubana og mjúkan og hlýjan félagsskap, útrás fyrir blíðu sína og keliþörf - og samband við villidýr og þar með snert af þeirri kennd að hið óþekkta sé viðráðanlegt. Ríkur þáttur af aðdráttarafli kattarins er auðvitað hið villta eðli hans, grængolandi leyndin sem umlykur hann, það að hann verður aldrei taminn heldur fer sinna eigin ferða; hann á sér líf utan við mig.

Kisa kemur til mín og mjálmar á mig þegar hún vill að ég gefi sér mat eða opni gluggann; það þýðir hins vegar ekkert fyrir mig að mjálma á hana þegar ég vil að hún geri eitthvað fyrir mig. Hún þykist ekki skilja það. Ég gæti aldrei sagt kettin­um að sækja fyrir mig spýtu - hann gæti hins vegar sagt mér að sækja fyrir sig spýtu.

Þetta er það sem kötturinn gefur mér: Hann gefur mér valdaleysi mitt í samskiptum við sig án þess að hann þröngvi mér á nokkurn hátt. Hann gefur mér tækifæri til að sýna skilyrðis­lausan kærleika. Hann gefur mér stað í sköpunarverkinu.






×