Innlent

Enn engin merki um goslok

Kvikustreymi og gosmökkur í Eyjafjallajökli hefur verið með svipuðum hætti og undanfarna sólarhringa og hraun heldur áfram að renna til norðurs í upptökum Gígjökuls. Af gufu sem leggur upp af Gígjökli má ráða að hraunið sé komið í hallann til norðurs. Ekki sjást merki um að gosi sé að

ljúka að mati Veðurstofunnar en gosórói hefur verið svipaður og undanfarna daga.

Vatnsrennsli frá Gígjökli jókst mjög í dag en þá kom flóðgusa sem er sú stærsta síðan 16. apríl. „Vatnið í flóðinu var heitt og mældist vatnshitinn á sírita niðri við Markarfljótsbrú yfir 11°C. Leiðnin í vatninu er lág sem er einnig breyting frá því sem var. Vatnamælingamenn frá Veðurstofunni eru við Markarfljótsbrú og taka sýni af vatninu og mæla rennslið. Leiðni er mjög há í Krossá og var um 300 μS/cm í gær. Leiðni hefur einnig verið að hækka í Steinsholtsá og er nú yfir 170 μS/cm sem er óvenjulega há leiðni nema jarðhitavatn sé á vatnssviði árinnar. Öskufall eða öskumengaður snjór sem gæti hugsanlega verið ástæða hárrar leiðni í Steinsholtsá og hraunið á Fimmvörðuhálsi gæti einnig haft áhrif á leiðni í Krossá."

Þá segir að hætta stafi af ósýnilegum gastegundum fyrir framan Gígjökul innan jökulgarðanna. „Helstu gastegundirnar eru CO2 og líklega SO2. Þær eru þyngri en andrúmsloft. Styrkur þeirra er því mestur rétt ofan árinnar og mestur í logni. Engin merki um breytingar undir Kötlu."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×