Erlent

Brá þegar hann tók upp brúðina

Óli Tynes skrifar
Bláu augun þín....eða hvað?
Bláu augun þín....eða hvað?

Arabiskur sendiherra sótti um skilnað eftir að hann komst að því að á bak við slæðu sína var brúður hans bæði skeggjuð og kolrangeyg.

Breska blaðið Daily Telegraph segir að sendiherrann hafi ekki verið nafngreindur en að þetta hafi verið í Sameinuðu Arabisku Furstadæmunum.

Maðurinn hafði aðeins hitt konuna nokkrum sinnum og þá var andlit hennar hulið. Eftir að hjónabandssáttmálinn hafði verið undirritaður ætlaði hann að kyssa hana og komst þá að því hvernig hún leit út.

Fyrir rétti þar sem hann sótti um skilnað sagði sendiherrann frá því að móðir brúðarinnar hefði sýnt sinni móður mynd af systur hinnar verðandi brúðar en ekki henni sjálfri.

Hann krafðist þess því að hjónabandið yrði ógilt. Þar að auki krafðist hann þess að fá greidd yfir 84 þúsund sterlingspund sem hann hafði varið til að kaupa föt og skartgripi handa sinni heittelskuðu.

Sharia-rétturinn féllst á að ógilda hjónabandið en hafnaði því að konan þyrfti að endurgreiða gjafirnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×