Erlent

Handjárnuð barin og nauðgað í átta ár

Óli Tynes skrifar
Kampusch og Priklopil.
Kampusch og Priklopil.

Natascha Kampusch var tíu ára gömul á leið í skólann þegar Wolfgang Priklopil rændi henni árið 1998.

Næstu átta árin var henni haldið fanginni í lítilli steinkompu undir kjallara bílskúrsins við heimili Priklopils.

Í ævisögu sem kemur út í dag segir hún frá því að hún hafi mátt þola stanslausar barsmíðar þegar hann var að brjóta hana undir vilja sinn.

Hlýddu, hlýddu, hlýddu ómaði stöðugt í eyrum hennar. Hann skipaði henni að finna sér nýtt nafn því hún væri ekki lengur Natascha. Nú tilheyrði hún honum

Handjárnuð við nauðgarann

Hún átti líka að kalla hann meistara eða herra. Þegar hann tók hana í sitt eigið rúm var hún handjárnuð við hann til þess að hún gæti ekki flúið meðan hann svæfi.

Hann neyddi hana til þess að krúnuraka sig og vinna hálfnakin sem þjónustustúlka á heimilinu.

Talsvert hefur verið fjallað um samband hennar við mannræningjann, sem þótti undarlegt. Eftir að henni loks tókst að flýja var eins og henni þætti vænt um hann.

Í bókinni segir hún að hún hafi gert örvæntingafullar tilraunir til þess að gera tilveru sína á einhvern hátt eðlilega.

Hún hafi beðið Priklopil um að breiða yfir sig á kvöldin og segja sér sögu. Hún hafi jafnvel beðið hann um að kyssa sig góða nótt. Og hann spilaði með, segir hún.

Natöschu tókst loks að flýja í ágúst árið 2006 meðan Priklopil var að þrífa bíl sinn. Priklopil framdi sjálfsmorð með því að stökkva fyrir járnbrautarlest, áður en lögreglan hafði hendur í hári hans.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×