Viðskipti innlent

Krugman: Kreppukraftaverk Íslands

Paul Krugman.
Paul Krugman.

Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði segir Ísland hafa tekið út mikið vægari refsingu vegna kreppunnar en aðrar þjóðir, meðal annars vegna hruns krónunnar og gjaldeyrishafta.

Bandaríski hagfræðingurinn Paul Krugman, sem hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði fyrir tveimur árum, skrifar um heimskreppuna og Ísland í dálki sínum á heimasíðu New York Times í gærkvöldi undir fyrirsögninni Kreppukraftaverkið á Íslandi.

Hann segir einhverjar mestu efnahagslegu hamfarir sögunnar hafa dunið á landinu. Örfáir auðmenn hafi reist hér skammlíft fjármálaveldi með ógurlegri skuldsetningu, sem almenningur þurfi nú að greiða fyrir. Krugman segir að hagkerfið hafi orðið hugmyndafræði frjálshyggju og einkavinavæðingu að bráð.

Krugman segir þessar ótrúlegu hamfarir hins vegar jafnframt vera gæfu landsins. Vegna þess hvað staða Íslands var þröng og skuldir landsins miklar hafi það neyðst til að beita óhefðbundnum meðulum í baráttunni við kreppuna. Gjaldmiðlinum hafi verið leyft að húrra og gjaldeyrishöftum hafi verið komið á.

Það sem Krugman á hér við er að vegna hruns krónunnar hafi halli á utanríkisviðskiptum breyst í afgang, og höggið sem kom á hagkerfið vegna samdráttar í neyslu því orðið mun minna en ella.

Og hér kemur það sem vekur athygli Krugmans; þrátt fyrir að Ísland hafi upplifað verstu fjármálakreppu sögunnar hefur það tekið út vægari refsingu en önnur Evrópulönd. Á heimasíðunni dregur hann upp graf þar sem sést að samdráttur í landsframleiðslu og atvinnu hér á landi er mun minni en í löndum sem urðu fyrir sambærilegum eða vægari áföllum en Ísland.

Hann segir boðskap sögunnar vera þann að ef ríki lenda í kreppu, þá sé eins gott að hún sé reglulega djúp. Annars sé hætt við að ríkin þiggi ráðleggingar sem valdi enn verri lægð.

Grein Krugman má lesa hér. 







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×