Lífið

Grunge-gaur á HönnunarMars

Nýstárleg hönnun hans var vinsæl og áberandi á 10. áratugnum.
Nýstárleg hönnun hans var vinsæl og áberandi á 10. áratugnum.

Hönnunarhátíðin HönnunarMars fer fram í annað sinn dagana 18.-21. mars. Hátíðinni er ætlað að vekja athygli á íslenskum hönnuðum. Aðalgestur hátíðarinnar verður Bandaríkjamaðurinn og grafíski hönnuðurinn David Carson.

David Carson er best þekktur fyrir mikla nýbreytni og hugmyndaauðgi í hönnun tímarita sem og óvenjulegar útfærslur á leturgerðum og prentfrágangi. Hann er einn áhrifamesti grafíski hönnuður tíunda áratugarins. Sérstaklega birtast áhrifin frá Carson í þeirri stefnu sem er nefnd grunge-tímabilið og hefur yfir sér einstakan listrænan blæ sem margir listamenn hafa sótt sér innblástur í. Þrátt fyrir óumdeilda hæfileika er Carson ekki menntaður í listgreinum. Hann er félagsfræðingur frá ríkisháskólanum í San Francisco.

Stíll Carsons er nýstárlegur, frjálslegur og án reglna og takmarkana. Frægastur er Carson fyrir útlit tímaritsins Ray Gun, en þar starfaði hann sem listrænn hönnuður. Þar kynnti hann til sögunnar glænýja og framsækna sýn á blaðsíðuhönnun. Hann hefur einnig starfað fyrir risafyrirtæki á borð við Nike, Pepsi, MTV, Sony og Armani. David Carson hefur sjálfur ritað fjölda bóka um hönnun. Bókina The End of Print ber hæst en hún var þýdd á fimm tungumál og seld um allan heim.

Carson mun halda fyrirlestur á HönnunarMars en auk hans koma margir erlendir gestir og blaðamenn á hátíðina. Meðan á hátíðinni stendur verður höfuðborgin undirlögð af hönnun af hinum fjölbreytilegasta toga. Meira en 150 hönnunarviðburðir eru fyrirhugaðir úti um alla borg.

drgunni@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×