Innlent

Horfur á að ferðamönnum fækki um hundrað þúsund

Katrín segir afar mikilvægt að koma því á framfæri við umheiminn að ferðamenn séu öruggir á Íslandi. Ríkisstjórnin hyggst leggja allt að 350 milljónir króna til kynningar á landinu.
Katrín segir afar mikilvægt að koma því á framfæri við umheiminn að ferðamenn séu öruggir á Íslandi. Ríkisstjórnin hyggst leggja allt að 350 milljónir króna til kynningar á landinu. Mynd/GVA
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að leggja allt að 350 milljónir króna í kynningarátak á íslandi, vegna fyrirsjáanlegrar fækkunar ferðamanna til Íslands. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði að stefnt gæti í að erlendum ferðamönnum fækkaði um allt að eitt hundrað þúsund miðað við áætlanir þessa árs, sem hefði í för með sér tekjutap upp á 25 til 30 milljarða króna.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og ferðamálaráðherra, sagði að sérstakt viðbragðsteymi stjórnvalda og aðila í ferðaþjónustu hefði starfað frá því eldgosið í Eyjafjöllum hófst. Mjög mikilvægt væri að koma því á framfæri við umheiminn að ferðamenn væru öruggir á Íslandi. Ríkisstjórnin myndi leggja allt að 350 milljónir króna til kynningar á landinu, móti sams konar framlagi frá aðilum í ferðaþjónustu, sveitarfélögum og öðrum sem hefðu hag af ferðaþjónustunni. Heildarframlög til kynningarmála gætu því orðið allt að 700 milljónir króna.

Katrín sagði að fjármununum yrði varið til beinna auglýsinga sem og kynninga, t.d. fyrir ferðaheildsöluaðila. Í raun væri um fjárfestingu að ræða því kynningin myndi bæði skila auknum skatttekjum og verja fjárfestingu undanfarinna ára í ferðaþjónustunni.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði Ísland aldrei hafa fengið meiri kynningu eða umræðu í fjölmiðlum í heiminum og að undanförnu. Í þeirri umræðu fælist líka tækifæri. Mikilvægt væri að koma því á framfæri að Ísland væri jafn öruggt heim að sækja nú og áður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×