Innlent

Þjófur laus þrátt fyrir myndbirtingu

Ölstofuþjófurinn Maður sést í öryggismyndavélum stela jakka sem hengdur hafði verið undir barborðið. Myndband af þjófnaðinum var enn á Netinu í gærkvöld þótt fórnarlambið hafi lofað að láta fjarlægja það.
Ölstofuþjófurinn Maður sést í öryggismyndavélum stela jakka sem hengdur hafði verið undir barborðið. Myndband af þjófnaðinum var enn á Netinu í gærkvöld þótt fórnarlambið hafi lofað að láta fjarlægja það.

Þjófur sem stal jakka með veski, síma, myndavél og öðrum verðmætum á Ölstofunni aðfaranótt sunnudags gengur enn laus þrátt fyrir að myndband af þjófnaðinum hafi verið birt á Netinu í gær.

Fórnarlamb þjófsins er Suður-Afríkumaðurinn Andrie Roux.

„Hann fékk disk hjá okkur úr öryggismyndavélum til að fara með til lögreglunnar og hann setti myndirnar á Netið. Hann langaði bara að fá jakkann,“ útskýrir Kormákur Geirharðsson, einn eigenda Ölstofunnar, hvernig það megi vera að myndskeið úr eftirlitsmyndavélum á öldurhúsi, þar sem gestum er sérstaklega bannað að nota myndavélar, rötuðu í opinbera birtingu á Netinu.

„Við töluðum sérstaklega um það að hann mætti ekki birta þessar myndir á Netinu því ég ætlaði að kanna hvað mætti og hvað ekki í þeim efnum,“ undir­strikar Kormákur sem kveðst hafa rætt við Roux í gær og hann hafi lofað að fjarlægja myndbandið af internetinu.

„Hann spurði hvort þetta yrði leyfilegt ef hann myndi blörra alla nema sjálfan sig og þjófinn og við erum að hugsa það.“

Kormákur bendir á að oft sé hægt að ná afbrotamönnum með opinberri myndbirtingu.

„Ég er ekki hrifinn af því að menn séu að stela hérna inni og er til í að sýna myndir af hvaða þjófi sem er,“ segir vertinn á Ölstofunni. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×