Innlent

Ekki stendur til að mismuna fólkinu

Stella K. víðisdóttir
Stella K. víðisdóttir
Forsvarsmenn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hittu fulltrúa Fjölskylduhjálpar Íslands að máli í gær og fóru yfir mannréttindastefnu borgarinnar. Sérstaklega var rætt um að mismuna ekki fólki á grundvelli þjóðernis, í ljósi frétta um að Íslendingar nutu forgangs í síðustu matarúthlutun hjálparinnar.

„Ásgerður útskýrði mál sitt og það stendur ekki til að beita svona vinnubrögðum, að mismuna fólki,“ segir Stella Víðisdóttir, sem er sviðsstjóri velferðarsviðs.

Jórunn Frímannsdóttir, formaður velferðarráðs, segir ekkert nema gott um fundinn að segja: „Þau eru samstarfsfús og munu vonandi gera þetta á réttan hátt hér eftir.“

Eins og fram hefur komið í viðtali við framkvæmdastjóra Fjölskylduhjálparinnar hér í blaðinu nutu Íslendingar forgangs þegar matvælum var dreift til nauðstaddra á miðvikudag.

Framkvæmdastjórinn, Ásgerður Jóna Flosadóttir, sagði þá að hún hefði tekið „alla Íslendingana fram fyrir“ og beðið útlendinga að bíða. Matthías Imsland, stjórnarformaður Fjölskylduhjálparinnar, var spurður hvort endurskoða þyrfti verklag Fjölskylduhjálparinnar. Hann sagðist ekki hafa kynnt sér viðtalið við Ásgerði og telur um einhvern misskilning milli hennar og blaðamanns að ræða. „Menn spá ekkert í þjóðerni hjá Fjölskylduhjálpinni,“ segir hann.

Ekki hefur náðst í forsvarsmann Mæðrastyrksnefndar, en Hjálparstarf kirkjunnar hefur reglur sem banna mismunun á grundvelli þjóðernis. - kóþ
Jórunn Frímannsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×