Fastir pennar

Kjördagur óánægjunnar

Þorsteinn Pálsson skrifar

Þrennt einkennir einkum sveitarstjórnarkosningarnar í dag: Í fyrsta lagi eru þær ópólitískari og málefnasnauðari en endranær. Í öðru lagi hafa landsmálin ríkari áhrif en fyrr. Í þriðja lagi eru þær meira bundnar við fortíðina en gengur og gerist.

Þegar spurt er um hvað kosningarnar snúast vandast málið. Ef draga á ályktanir af fylgiskönnunum má svara á tvo vegu. Ekki er ofmælt að þær snúist um Besta flokkinn í Reykjavík. Einnig má segja að þær snúist um leiðindi og vantrú kjósenda. Báðar skýringarnar ríma saman.

Fjölmiðlar og flestir stjórnmálafræðingar hafa skilgreint Besta flokkinn sem grín framboð. Við liggur að hann hafi jafn sterka stöðu og Halldór skopmyndateiknari á því sviði. Frambjóðendur allra flokka mega skopast hver að öðrum. Það breytir hins vegar ekki hinu að sérhvert framboð er tilboð um þjónustu og ábyrgð.

Talsmenn rótgrónu flokkanna hafa allir sem einn mætt framboði Besta flokksins með því að segja að í háðinu liggi skýr skilaboð sem þeir verði að taka alvarlega. Enginn þeirra hefur þó breytt stefnuskrá sinni eða málflutningi. Hvað skýrir það?

Sennilegasta skýringin er sú að í landinu situr ríkisstjórn sem er föst í málefnakreppu. Á sama tíma hefur stjórnarandstöðunni ekki auðnast að byggja upp trúnað um aðrar leiðir út úr efnahagsþrengingunum.

Venjulega eru ríkisstjórnarflokkar í meiri vörn en stjórnarandstaða í sveitarstjórnarkosningum. Nú virðist Besti flokkurinn hins vegar vera eins konar safnþró fyrir óánægju bæði með núverandi ríkisstjórn og þá sem á undan henni sat.

Þó að kosið sé til sveitarstjórna bendir flest til að þetta verði kjördagur óánægju með Alþingi.

Ekki dagur málefnauppgjörs

Alþingiskosningarnar fyrir ári voru uppgjör við efnahagshrunið en ekki vegvísir til framtíðar. Þessi málefnastaða er enn óbreytt. Þar liggur óánægjuhundur kjósenda grafinn.

Í þessu ljósi kemur á óvart að allir flokkarnir hafa reynt að hafa kosningabaráttuna og stefnuskrárnar eins ópólitískar og kostur er. Það er rétt svo að almenn kennimerki eins og „ábyrg fjármálastjórn" og „félagsleg ábyrgð" gefi vísbendingar um mismunandi hugmyndafræði. Frá þessu eru tvær undantekningar:

Annars vegar er loforð frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og víðar að hækka ekki útsvar. Hins vegar eru áform Samfylkingarinnar í Reykjavík og nokkrum stærstu bæjarfélögunum að fara í stórkostlegar lántökur á takmörkuðum lánamarkaði í samkeppni við atvinnulífið í þeim tilgangi að fjölga fremur störfum á ábyrgð skattgreiðenda en fyrirtækja. Að stærstum hluta á að taka þessi lán eftir grísku aðferðinni framhjá bókhaldi viðkomandi sveitarsjóða.

Af hálfu beggja flokkanna er þessi stefnumörkun skýr um afmarkaðan hluta þeirra verkefna sem við blasa. Hún segir hins vegar sína sögu og varpar ljósi á ólík viðhorf gagnvart kröfunni um ábyrga fjármálastjórn.

Fjölmiðlar hafa ekki sýnt þessum stefnuatriðum áhuga með greiningu á ólíkum efnahagslegum áhrifum þeirra. Talsmenn flokkanna hafa heldur ekki sýnt áhuga á að takast á um þessi málefni í rökræðum. Fyrir þá sök hafa kjósendur ekki á tilfinningunni að þetta sé dagur málefnauppgjörs um framtíð borgarinnar og annarra sveitarfélaga og því síður um viðreisn landsins.

Morgundagurinn

Hvað ber morgundagurinn í skauti sér? Gangi fylgiskannanir eftir munu kosningarnar fyrst og fremst staðfesta þá pólitísku kreppu sem ríkt hefur í landinu í bráðum tvö ár.

Staðbundin sjónarmið ráða yfirleitt meir í minni sveitarfélögum en stærri. Reykjavík endurspeglar eftir þeirri kenningu best pólitísku stöðuna á landsvísu. Úrslitin eru of mikilli óvissu undirorpin til þess að unnt sé að segja fyrir um myndun meirihluta í höfuðborginni. Nokkur viðmið sjást þó:

Fái Besti flokkurinn fjóra borgarfulltrúa eða fleiri felst í því krafa um að hann eigi aðild að meirihlutasamstarfi. Verði hann stærsti flokkurinn er eðlilegt að hann hafi forystu fyrir nýjum meirihluta.

Leiðtogi sjálfstæðismanna hefur lagt til að allir flokkar í borgarstjórn starfi og beri ábyrgð saman. Eigi hann að geta knúið ríkisstjórnarflokkana til samstarfs um óbreytt útsvar þarf hann þó að líkindum betri kosningu en kannanir hafa sýnt. Þá verður ekki séð að Sjálflstæðisflokkurinn geti fallist á lántökufjárhættuspil Samfylkingarinnar.

Lýsi annar hvor ríkisstjórnarflokkanna vilja til að starfa með Sjálfstæðisflokknum rekur hann um leið fleyg tortryggni í stjórnarsamstarfið.

Meðan málefnastaða flokkanna er jafn óskýr gefa kosningarnar enga vísbendingu um framtíð Íslands. Þær ættu hins vegar að vera tilefni til að gefa því viðfangsefni meiri gaum. Kosningarnar sýna einfaldlega að lengur verður ekki undan því vikist. Þegar öllu er á botninn hvolft er meiri þörf á skýrri framtíðarsýn heldur en fleiri afsögnum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×