Innlent

Áfram flogið um Akureyri

Millilandaflug hefur farið um Akureyrarflugvöll um helgina og svo verður áfram í dag.
Millilandaflug hefur farið um Akureyrarflugvöll um helgina og svo verður áfram í dag.
Flugsamgöngur víðs vegar um Evrópu komust í uppnám vegna eldgossins í Eyjafjallajökli um helgina. Flugvöllum var meðal annars lokað um tíma í Frakklandi, Sviss, Þýskalandi, Spáni, Ítalíu og Írlandi í gær. Um 24.500 flug fóru um Evrópu í gær, en það er 500 færri flug en venja er. Þá urðu talsverðar seinkanir þar sem fljúga þurfti lengri leiðir til að forðast öskuský.

Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur hafa verið lokaðir um helgina og hefur flug til og frá landinu því farið um Akureyrarflugvöll. Áfram verður flogið um Akureyrarvöll í dag, en vonast er til þess að hægt verði að fljúga frá Keflavík í kvöld. Samkvæmt spám er gert ráð fyrir að flug geti verið komið í fastar skorður á morgun, að sögn Guðjóns Arngrímssonar hjá Icelandair.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni virðist framleiðsla gosefna hafa farið dvínandi síðustu vikuna. Gosvirknin hafi þó gengið í bylgjum og búast megi við áframhaldandi sveiflum. Þá sé ekkert sem bendi til þess að gosinu sé að ljúka.

Drunur heyrðust frá gosinu í tæplega 200 kílómetra fjarlægð, meðal annars í Borgarfirði, Vestmannaeyjum og í Austur-Húnavatnssýslu. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×