Innlent

Íslendingar færa Bretum ekkert annað en tóm leiðindi

Blaðamaðurinn Georgia Graham veltir upp spurningunni: Hvað hefur Ísland gert fyrir Bretland að undanförnu - í pistli í breska dagblaðinu The Telegraph.
Blaðamaðurinn Georgia Graham veltir upp spurningunni: Hvað hefur Ísland gert fyrir Bretland að undanförnu - í pistli í breska dagblaðinu The Telegraph.
Íslendingar hafa eiginlega fært Bretum ekkert annað en tóm leiðindi að mati bresks blaðamanns. Við fórum í stríð við þá vegna þorsks, stálum sparifé þeirra og núna eru allar samgöngur lamaðar vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Það er óhætt að fullyrða að íslenska þjóðin sé ekki efst á vinsældalista margra Breta, en það er sennilega gagnkvæmt eftir atburði bankahrunsins.

Blaðamaðurinn Georgia Graham veltir upp spurningunni: Hvað hefur Ísland gert fyrir Bretland að undanförnu - í pistli í breska dagblaðinu The Telegraph. Íslendingar fóru í stríð við Breta vegna þorsks, þeir stálu peningum breskra sparifjáreigenda með Icesave-reikningunum og eyðilögðu næstum því knattspyrnufélagið West Ham.

Þá stýra Íslendingar, eða réttara sagt þrotabú Landsbankans, leikfangaversluninni Hamley's sem er eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna sem koma til Lundúna í þeim erindagjörðum að versla. Þá virðist það fara í taugarnar á Graham að nær ómögulegt sé að innleiða breska kurteisi í íslenska málið, því Íslendingar eigi ekkert orð fyrir enska orðið please.

Flestir myndi sennilega telja Íslendingum það til tekna að hafa fært bresku þjóðinni Björk, Latabæ og fyrir það að hafa komið lopapeysunum í tísku, en Graham er ekki sammála því. Því hún virðist þeirrar skoðunar að lopapeysurnar séu ólögulegar og aðeins ellilífeyrisþegum sæmandi.

Velta má fyrir sér hvort pistlahöfundurinn hjá Telegraph hafi farið öfugu megin fram úr rúminu áður en hún settist niður við lyklaborðið til að rita framangreint, en að sjálfsögðu verður ekki lagður dómur á það í þessum pistli.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×