Innlent

Icesave verður flutt sem stjórnarfrumvarp í vikunni

Sigríður Mogensen skrifar
Forystumönnum ríkisstjórnarinnar mistókst í dag að fá stjórnarandstöðuna til liðs við sig í Icesave málinu. Stjórnarandstaðan vill ekki vera með á frumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem verður lagt fram í vikunni. Forsætisráðherra vonast til að málið verði að lokum afgreitt samhljóða.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra funduðu með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, Sigurði Inga Jóhannssyni, Framsóknarflokki og Margréti Tryggvadóttur úr Hreyfingunni um nýja Icesave samkomulagið í dag. Fundurinn stóð í tuttugu mínútur og lauk honum án þess að sátt næðist um málið.

„Við höfum lagt áherslu á það að stjórnarflokkarnir allir, stjórn og stjórnarandstaðan fylgdust að í þessu máli nú þegar það kæmi inn í þingið, þannig að það yrði flutt sameiginlega af öllum stjórnarflokkunum á þingi. En það náðist ekki samkomulag um það," segir Jóhanna.

Málið verður því flutt sem stjórnarfrumvarp í vikunni. Fjármálaráðherra mælir fyrir því og í framhaldinu fer það til umfjöllunar í fjárlaganefnd.

Eins og við greindum frá í hádegisfréttum geta Bretar og Hollendingar einhliða sagt sig frá samkomulaginu verði frumvarpið ekki orðið að lögum fyrir áramót.

„Ég held að þeir geri sér alveg grein fyrir því að við þurfum nokkurn tíma í þinginu, þannig að þó við tökum okkur tíma, drjúgan hluta í janúar í það að reyna að klára þetta, þá held ég að það hafi ekki áhrif á þessi drög sem nú liggja fyrir."

Stjórnarandstaðan liggur nú yfir gögnum málsins.

„Mér finnst eðlilegt að þeir taki sér tíma til þess. En miðað við það hvernig þeir hafa lagt upp þessa samninga, sem vissulega eru mjög hagstæður, trúi ég því að við munum fylgjast að í lokin og vonast til að þetta verði afgreitt samhljóða," segir Jóhanna.

Óttastu afstöðu forseta Íslands í málinu?

„Nei ég geri það út af fyrir sig ekki, það er sjálfstætt mál þegar þar að kemur, en ég vona að það verði samkomulag hér á þinginu í málinu, það skiptir máli um framhaldið."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×