Innlent

Samkomulag um gagnaver Verne Holding er í eðlilegu ferli

Mynd/GVA
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, segir að engar tafir hafi orðið á gerð fjárfestingarsamnings stjórnvalda við Verne Holding um gagnaver á Suðurnesjum. Málið sé í eðlilegu ferli á Alþingi.

Framkvæmdir við gagnaverið hafa verið stöðvaðar. Tugir iðnaðarmanna sem hafa verið við störf við uppbyggingu húsnæðis fyrirtækisins fengu bréf um að leggja verkfærunum þangað til annað kæmi í ljós. Kristján Gunnarsson, framkvæmdastjóri Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, segir að það sé reiðarslag og ömurlegt innlegg fyrir atvinnumál á Suðurnesjum. Stjórnarformaður Verne Holding, Vilhjálmur Þorsteinsson, segir ástæðuna fyrir töfunum vera bið eftir því að Alþingi afgreiði fjárfestingasamning sem þar liggur fyrir.

„Það hefur engin töf orðið á neinu varðandi þennan fjárfestasamning í meðförum þingsins. Frumvarp til heimildarlaga var lagt fram á Alþingi og fór strax í eðlilega þinglega meðferð og er fyrstu umræðu lokið. Enginn fjárfestingarsamningur hefur fengið sérstaka flýtimeðferð og svo verður heldur ekki núna. Þetta hafa allir málsaðilar vitað," segir Katrín og bætir við að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við þetta vinnulag né óskað eftir flýtimeðferð.

Miklu máli skipti að samningur eins og þessi fái vandaða meðferð og á Katrín von á því að iðnaðarnefnd og Alþingi samþykki frumvarpið þegar þing kemur saman á nýjan leik.

Mikilvægt að bregðast við ákvörðun forseta Íslands

Katrínu er kunnugt um að Verne Holdeing þurfa nýja beina erlenda fjárfestingu til að geta haldið verkefninu áfram að fullum krafti og því hafi verið gengið til fjarfestingasamninga. Hún vonast til þess að óvissan sem endurreisnaráætlun stjórnvalda var sett í með ákvörðun forseta Íslands varðandi Icesave lögin og mögulegt vantraust á Íslandi í kjölfarið tefji ekki eða stöðvi fjárfestingarverkefni hér á landi.

„Verkefni stjórnvalda er að stuðla að því að endurheimta traust. Fjárfestingarsamningar um stöðugleika í rekstrarumhverfi eru mikilvægt tæki til að ná því markmiði," segir Katrín.


Tengdar fréttir

Frestun á gagnaveri „helvítis“ áfall fyrir byggingageirann

„Þetta er helvítis áfall fyrir byggingageirann,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, en allar framkvæmdir hafa verið stöðvaðar við gagnver Verner Holdings. Stjórnarformaður félagsins, Vilhjálmur Þorsteinsson, segir ástæðuna fyrir töfunum vera bið eftir því að Alþingi afgreiði fjárfestingasamning sem þar liggur fyrir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×