Innlent

Engin eldsumbrot í Eyjafjallajökli

Allt virðist með kyrrum kjörum í Eyjafjallajökli. Mynd/ vilhelm.
Allt virðist með kyrrum kjörum í Eyjafjallajökli. Mynd/ vilhelm.
Allt virðist hafa verið með kyrrum kjörum í Eyjafjallajökli í nótt eftir að nokkrir smáskjálftar mældust í jöklinum, suðvestur af Básum í Þórsmörk í gærkvöldi. Síðan hefur allt verði rólegt í jöklinum, en kraftur er að færast í hreinsunarstarf.

Ekki hefur goslokum þó verið lýst opinberlega, og enn er talið eð eðjuflóð geti steypst ofan af jöklinum, en þau geta orðið þegar leysingavatn og regnvatn blandast gosösku á jöklinum,og allt hleypur fram, eins og tvívegis hefur gerst, til suðurs. Lokanir eru enn í gildi vegna þessa en Vegagerðin er byrjuð að lagfæra veginn inn í Þórsmörk, sem skolast í burtu á löngum kafla í flóðum í Markarfljóti.

Slökkviliðsmenn af Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu  vinna nú að hreinsun ásamt sjálfboðaliðum, og búist er við allt að 70 manns til viðbótar samkvæmt samkomulagi við atvinnuleysistryggingasjóð. Bændur eystra eru farnir að hleypa kúm út á beit, en óvenju góð spretta hefur verið á svæðinu í vor, þar sem öskulagið hefur ekki orðið of þykkt og beinlínis kæft grasið.-




Fleiri fréttir

Sjá meira


×