Fastir pennar

Samið um sama

Pawel Bartoszek skrifar
Niðurstaða svokallaðrar sáttanefndar í sjávarútvegi er nákvæmlega eins og það sem búast má við þegar markaðstortryggnir sveitasósíalistar láta margreynda lobbýista gabba sig til að halda að þeir séu að gera rétt. Útkoman, svokölluð samningsleið, virðist í meginatriðum vera sú að ríkið og hagsmunaaðilar ætla að setjast niður og semja um niðurgreidda langtímaleigu á kvóta auk þess sem menn vilja taka fyrir það sem er best við kerfið og búa til einhverja dótakvóta sem stjórnmálamenn geta kubbað með.

Kvótakerfið er ekki vont kerfi. Helstu kostir eru þeir að menn eiga hlutdeild í heildarafla, og þessa hlutdeild geta menn selt eða leigt.

Þetta er allt saman hið besta mál. Markaðurinn á þá að sjá um að sá veiði fiskinn sem geti gert það á sem hagkvæmastan máta.

Braskið svokallaða er þannig það besta í kerfinu. Brask er bara orð markaðshatara yfir viðskipti. Brask er gott. Þeir sem svekkja sig á því sem þeir halda að kvótakerfið hafi gert fyrir sumar byggðir landsins eru að svekkja sig á því að það sé niðurstaða markaðarins að sumir staðir eru óhagkvæmari vettvangur fyrir matvælaframleiðslu en aðrir. Ef eplarækt á Hvammstanga bæri sig illa ætti það að vera mönnum skilaboð um að snúa sér að öðru. En það eru óþægilegar fréttir að færa fólki og við búum í landi sem stjórnmálamenn hafa langa reynslu af því að vilja þykjast lagfæra mistök markaða. Þegar markaðurinn klikkar þarf að leysa málið.

„Eplarækt skal tryggð. Standa þarf vörð um landnámseplið," myndi fólk segja. Sama fólk bjó til byggðakvóta. Með óhagkvæmni skal landið byggja. Það er gott að einhver eigi kvótann sem kunni með hann að fara en einhvern veginn þarf samt að selja hann til að byrja með. Sú leið að bjóða hann upp er bæði sanngjörn, hagkvæm og gegnsæ, sem verður ekki endilega sagt um þá úthlutunaraðferð sem notuð var við uppsetningu núverandi kvótakerfis. Uppboðskerfi er, frá markaðslegum sjónarmiðum einfaldlega miklu betra kerfi til að koma kvóta frá ríkinu og til einkaaðila. Væri einhver flokkur markaðssinna hér á landi þá ætti hann í það minnsta að hugleiða slíka leið í stað þess að einblína einungis á hagsmuni og afkomu þeirra aðila sem nú eiga veiðiréttindin. Menn ættu að standa vörð um markaðinn í stað þess að standa eingöngu vörð um eignarrétt fólks yfir einhverju sem það á eiginlega ekki alveg.

Auðvitað vilja þeir lobbýhópar sem nú eiga kvótann nú halda honum.

Auðvitað munu þeir gera allt sem þeir geta til að reikna það út að allt fari í kássu ef þeir missa kvótann smám saman yfir á opinn uppboðsmarkað. En ein leið til að meta skynsemi breytinga er að snúa dæminu við. Ef 5% kvótans væru boðin upp á hverju ári nú, myndu margir krefjast þess að því yrði hætt og þess í stað komið á einhverjum föstum hálfeignarrétti í samræmi við veiðireynslu? Auðvitað ekki.

Meginniðurstaða nefndarinnar er sátt kvótaeigenda sem vilja eðlilega halda í það sem þeir hafa og pólitíkusa sem óttast að ef markaðsöflin fengju að ráða þá færi allt í rugl. Í bókun fulltrúa VG má þannig lesa þá stórskemmtilegu skoðun hennar að allt framsal á kvóta ætti vera óheimilt nema þá hugsanlega með samþykki ríkisins, þá bara ef kvótinn færist ekki milli byggðarlaga og, hér er rúsínan í pylsuendanum, allur ágóði myndi renna til ríkisins. Hugtakið marxísk viðskiptafræði kemur upp í hugann: þú mátt bara selja dót ef þú tapar örugglega á því.

Þau meginstef sem úr skýrslunni berast eru semsagt óhagkvæmni og aftur óhagkvæmni. Það á að setja núverandi kvótastöðu á pásu og hindra að veiðiréttindin færist til þeirra sem gætu nýtt þau betur. Síðan verður búinn til einhver pottur til að formgera línuívilnanir, byggðakvóta og aðrar vitleysur sem Jónar Bjarnasynir framtíðar geta dandalast með og lengt í snöru óhagkvæmra fyrirtækja í þágu eigin vinsælda.

Tækifæri til að auka hagkvæmni og stöðugleika í sjávarútvegi hefur glatast. En stórskuldugar útgerðir geta vissulega dregið andann léttar í nokkur ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×