Innlent

Framseldur til Íslands - áfram krafist gæsluvarðhalds yfir hinum

Steingrímur í haldi lögreglu í Venesúela.
Steingrímur í haldi lögreglu í Venesúela. MYND/Lögreglan í Venesúela

Lögreglan í Venesúela handtók í fyrradag 36 ára íslenskan karlmann, Steingrím Þór Ólafsson, sem talinn er vera höfuðpaur í virðisaukaskattsvikunum, sem nýlega komst upp um hér á landi og nema 270 milljónum króna. Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þeim sem þegar eru í varðhaldi.

Hann var handtekinn á Santiagó Marínó flugvelli á eyjunni Margarita, þegar hann ætlaði að fara þaðan til Frankfurt í Þýskalandi, en hann mun hafa dvalið í Venesúela í 15 daga.

Maðurinn hvarf héðan af landi rétt áður en upp komst um virðisaukaskattssvikin, en þegar það gerðist gaf lögreglan út handtökuskipun til undirbúnings framsals á honum, og Interpól lýsti eftir honum.

Dagblaðið La Calle hefur eftir heimildum innan lögreglunnar að hann tengist eiturlyfjahring í Colombíu og lögreglan í Venesúela staðfestir að hann verði bráðlega framseldur til Íslands.

Alls voru sex manns, fjórir karlar og tvær konur handtekin og úrskurðuð í gæsluvarðhald, eftir að upp komst um svikin, þeirra á meðal starfsmaður skattstjóra.

Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir einum úr hópnum rann út fyrir helgi en fékkst framlengt til 8. október. Gæsluvarðhald yfir hinum fimm rennur út í dag og ætlar lögreglan að óska eftir framlengingu á þeim úrskurðum til sama tíma.

Jón H.B Snorrason aðstoðarlögreglustjóri vill að öðru leiti ekki tjá sig um gang rannsóknarinnar.

Málið hefur vakið töluverða athygli í Venesúela.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×