Innlent

Ótímabært að spá fyrir um endalok gossins

Töluvert hefur dregið úr virkni eldstöðvarinnar undir Eyjafjallajökli. Ekki er hins vegar orðið tímabært að spá fyrir um endalok þess. Meira en 700 tonn af gosefni ruddust upp úr gígnum á hverri einustu sekúndu fyrstu þrjá sólarhringana.

Flugvél Landhelgisgæslunnar flaug yfir gosstöðvarnar í dag. Minni skyggni var í dag en í gær en hitamyndir sem teknar voru koma jarðvísindamönnum að góðum notum.

„Katlarnir eru orðnir það stórir að það er frekar hæg bráðnun á ísnum. Gosefnin fara að mestu leyti upp í loftið en þetta er allt vatnssósa því það er nóg af vatni þarna ennþá. Þess vegna er mikil sprengivirkni," segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

En jarðvísindamenn voru líka að störfum á jörðu niðri. Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur, var að störfum undir Eyjafjöllum í dag og safnaði sýnum úr öskunni sem féll til jarðar í öskufallinu mikla í gær.

„Við erum náttúrulega að reyna að ná sem mestu upplýsingum um þetta eldgos. Þeim er safnað og skoðum þau nánar þegar við komum til Reykjavíkur," segir Ármann. „Við erum því miður ekki með rauntíma upplýsingar því þurfum náttúrulega að vinna úr þeim en þetta hjálpar samt."

Nú eru komnir fram fyrstu útreikningarnir á því hversu mikil gosefni hafa farið út í andrúmsloftið í gosinu og samkvæmt þeim hafa um 140 milljón rúmmetrar af gjósku komið úr eldstöðinni það er um 750 tonn á sekúndu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×