Innlent

Óttast að verða innlyksa á Íslandi

Hótelstjórinn á Hótel Sögu segir að ferðamenn óttist verða innlyksa hér á landi.
Hótelstjórinn á Hótel Sögu segir að ferðamenn óttist verða innlyksa hér á landi. Mynd/Hörður Sveinsson
Hundruð erlendra ferðamanna hafa afbókað gistingu á hótelum borgarinnar í apríl og maí vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Hótelstjórar eru uggandi og segja fólk helst óttast að verða innlyksa hér á landi.

Flugbannið undanfarna daga hefur nú þegar haft veruleg áhrif á íslenska ferðaþjónustu. Kristján Daníelsson, hótelstjóri á Hótel sögu, segir hundruð ferðamanna hafa afbókað gistingu á hótelinu í maí og apríl.          

„Það er óvissa og fólk er ekki kannski alveg tilbúið að ferðast ef það er ekki viss hvort það komist heim. Það hefur verið svolítið um afbókanir til skemmri tíma en ekki svo mikið yfir sumarið,“ segir Kristján.

Sömu sögu er að segja um önnur hótel í miðborginni, ferðamenn og ferðaskrifstofur hringja látlaust á hótelin og óska eftir upplýsingum um framhaldið.

„Margir eru að breyta ferðunum og seinka þeim. Við erum að vinna með innlendum og erlendum ferðaþjónustuaðilum og reyna að vinna úr óvissunni,“ segir Kristján.

Við þetta er að bæta að forsvarsmenn ferðaþjónustunnar sitja nú á fundi iðnaðarnefndar og ræða hvernig bregðast megi við fréttum erlendis af eldgosinu í Eyjafjallajökli. Skúli Helgason, formaður nefndarinnar, segir að landkynning sé eitt af því sem þurfi að skoða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×