Innlent

Þjóðvegi 1 lokað við Hvolsvöll

„Ólíkt því sem var í tengslum við eldgosið á Fimmvörðuhálsi er eldgosið í Eyjafjallajökli alls ekki svokallað ferðamannagos,“ segir í tilkynningu almannavarna.
„Ólíkt því sem var í tengslum við eldgosið á Fimmvörðuhálsi er eldgosið í Eyjafjallajökli alls ekki svokallað ferðamannagos,“ segir í tilkynningu almannavarna. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Almannavarnir ítreka að Eyjafjallajökull og hlíðar hans utan jökuls eru bannsvæði. Vindátt þurfi lítið að breytast til að öskufall verði þar. Í öskufalli svo nálægt eldstöðinni og í hæð jökulsins sé, auk mikilla áhrifa af öskunni sjálfri, mikil hætta af eldingum. Almannavarnir vara sterklega við öllum ferðum á Mýrdalsjökul. Jafnframt er enn er í gildi bannsvæði um 1 km. í kringum eldri eldstöðina á Fimmvörðuhálsi. Öll umferð á þessu svæði er bönnuð bæði gangandi og akandi ferðamönnum.

Þjóðvegur 1 er lokaður við Hvolsvöll og að austanverðu er lokað við Skóga. Fljótshlíðarvegur, númer 261, er lokaður austan við Smáratún. Fram kemur í tilkynningu almannavarna að mikil umferð sé í nágrenni Hvolsvallar. „Ólíkt því sem var í tengslum við eldgosið á Fimmvörðuhálsi er eldgosið í Eyjafjallajökli alls ekki svokallað ferðamannagos. Gos á þessum stað er mjög hættulegt og kallar á að mögulega þurfi að grípa til ráðstafana með stuttum fyrirvara. Aukið álag á viðbragðsaðila vegna ferðamanna er því ekki æskilegt."

Gosmökkurinn sést víða að og algjör óþarfi að fara alla leið á Hvolsvöll til að sjá hann. Það er lokað fyrir alla umferð við Hvolsvöll. Vegna möguleika á að gripið verði til skyndirýminga er þeim tilmælum beint til ferðamanna að virða þessar lokanir og vera alls ekki á ferð innan við þær.

Mikið öskufall

Mikið öskufall er undir Eyjafjöllum og að Vík. Öskufall er nú við Seljaland og skyggni lélegt þar. Ekkert öskufall hefur verið í Vestmannaeyjabæ. Gosmökkurinn yfir jöklinum er mjög hár og sést víða að.

Í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli er starfrækt upplýsingamiðstöð fyrir almenning vegna eldgossins. Vaktir lækna hafa verið tvöfaldaðar á svæðinu og eru birgðir af lyfjum og grímum nægar.

Hefur ekki áhrif á flug til Bandaríkjanna

Nánast allt flug yfir Mið-, Norður- og Austur-Evrópu hefur legið niðri og samkvæmt öskudreifingarspá er ekki útlit fyrir að það breytist á næstunni. Spár VAAC, Volcanic Ash Advisory Center, ná til miðnættis á morgun og ekki er gert ráð fyrir að svæðið breytist að ráði. Eldgosið hefur ekki haft áhrif á möguleika til flugs til Bandaríkjanna.

Innanlandsflug hefur gengið vel en ekki hefur verið flogið til Vestmannaeyja. Miðað við öskudreifingaspána ætti allt flug til Egilsstaða að vera með eðlilegum hætti í dag. Á www.flugstodir.is er hægt að fylgjast með áhrifum eldgossins á flugumferð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×