Innlent

Tína ofskynjunarsveppi með hulin andlit á almannafæri

Þessi maður hafði safnað dágóðu magni af sveppum í poka þegar ljósmyndari Fréttablaðsins átti leið hjá í vikunni.Fréttablaðið/vilhelm
Þessi maður hafði safnað dágóðu magni af sveppum í poka þegar ljósmyndari Fréttablaðsins átti leið hjá í vikunni.Fréttablaðið/vilhelm

 Mikið hefur verið um tínslu ofskynjunarsveppa í höfuðborginni upp á síðkastið. Sveppirnir innihalda ofskynjunarefni sem er á bannlista, og því er í raun bannað með lögum að tína þá, eiga og neyta – hvað þá selja.

Fréttablaðinu hafa borist ábendingar um að mjög mikið sé um það þessa dagana að svartklæddir menn með hulin andlit sitji löngum stundum á hækjum sér á umferðareyjum og í vegköntum og tíni sveppi í hundraðavís í poka. Þetta stundi fólk jafnvel um hábjartan dag.

Neysla ofskynjunarsveppa sem spretta á haustin innan borgarmarkanna hefur þekkst á Íslandi árum saman, að sögn Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis á Vogi. Þetta sé árlegur viðburður og sérstaklega sé algengt að kannabisneytendur sæki í skynáhrifin sem sveppirnir veita.

Sveppirnir innihalda psilocybin eða psilocin, ólögleg ofskynjunarefni, sem hafa sams konar áhrif og LSD. „Við höfum fengið til okkar fólk sem er algjörlega sturlað eftir svona sveppaát og áttar sig hvorki á stað né stund,“ segir Þórarinn. Sveppirnir valdi ekki fíkn en þó sé algengt að ungt fólk sem kemur inn á Vog hafi prófað þá.

Þórarinn segir ýmsar hættur geta fylgt neyslu þeirra. „Í fyrsta lagi eru til eitraðir sveppir sem geta valdið skemmdum á líffærum og það getur verið erfitt að greina þá frá öðrum,“ segir hann. Alltaf deyi þónokkuð margir í Evrópu vegna sveppaeitrunar á ári hverju, þótt ekki séu dæmi þess hér á landi.

Þá sé hægt að slasast undir áhrifum eða gera eitthvað sem ekki verður aftur tekið. Þriðja hættan sé sú að víman ýti undir undirliggjandi geðsjúkdóma.

Sögusagnir hafa lengið verið uppi um að sveppir sem hafi dregið í sig mikla umferðarmengun veiti sterkari vímuáhrif en aðrir. Þetta segir Jakob Kristinsson, dósent í eiturefnafræði við Háskóla Íslands, þó tæpast geta staðist.

Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar, segir að mál tengd sveppum hafi lítið sem ekkert komið inn á borð deildarinnar, enda ekkert sem bendi til þess að um skipulögð eða stórfelld viðskipti með þá sé að ræða. „Þetta hefur ekki verið framarlega í forgangsröðinni hjá okkur,“ segir hann. Vel geti þó verið að skoða þurfi þennan kima fíkniefnaheimsins betur.

Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn segir þó að sveppir séu reglulega gerðir upptækir og lögreglan reyni eftir föngum að stöðva fólk við tínslu þeirra.

stigur@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×